Entries in Ljóð (9)

mánudagur
jan.192009

Tygg eg söl, segir hún (Egla)

Örlögin höggva að hjarta mínu

hamslaust og stórt,

hvar er allt sem áður var

svo yndælt og bjart ?

 

Lífið er eins og lítil stúlka

á ljósbláum kjól.

hleypur frjáls að framtíð sinni

með fagnandi sól.

 

En skuggar fylgja,bregður birtu

og býsnir undir haust ,

 

lífið býður ekki uppá

annan betri kost.

 

Nú er höggvið stórt og stöðugt,

stenzt ég þessa raun ?

Sár mín ber ég eins og Egill

og oftastnær á laun.

----

Bíð og ligg í lokrekkjunni

en löng er dvölin,

hver er hinzta hugarbótin

og hvar eru sölin ?

 

 


föstudagur
jan.162009

Eiríks mál

(Ort vegna greinar Eiríks Guðmundssonar í Fréttablaðinu 3.1. ´09)

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega vera ríkir,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega spinna sinn vef eins og kóngulær,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega hlusta á Elton John

ef þeir láta okkur í friði?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega fá útflutningsverðlaun forsetans,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega viðra sig á Bessastöðum,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega gefa ölmusur,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega leika sér á excel.

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega blóta sína guði,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega telja hlutabréfin sín,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna mega þeir ekki

möndla við bókhaldið,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega verða gjaldþrota,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

---

En vildum við að þeir

létu okkur í friði?

 

Spyrjum leigupennana,spyrjum

Mæðrastyrksnefnd,

 

spyrjum Elton John !

 

föstudagur
jan.162009

Þar sem guð varð til

1.

Hamas,hisbóla

alkaíta,

 

hvað segja þessi

framandlegu orð ?

 

Að dauðinn

sé dýrmætari en lífið

 

að lífið

sé dýrmætast í dauðanum

 

að dauðinn

sé guði þóknanlegri

en lífið ?

 

Að helvíti sé í nánd ?

 

Nei,spyrjum ekki

óþægilegra spurninga,

 

það vekur tortryggni.

 

2.

Þeir herja á börnin

í Gasa,skjóta hendur

og fætur

af börnunum í Gasa

eins og óvitar slíti

vængi

af varnarlausum

flugum.

föstudagur
jan.162009

Kreppan

Hún liggur yfir landi eins og skuggi,

sem ljós við kerti slokknar sérhver gluggi

en himinljósin horfa niður og skína

og halda tryggð við langa vegferð þína.

 

Það dimmir mjög og landið liggur undir

lævísri ógn og villu nú um stundir,

allt er það myrkur þyngra en tárum taki,

tökum því vel því seinna kemur Laki.

 

Hnípin var sagt,en horfum fram á veginn,

hvar sem við förum þar er línan dregin,

hamingja þjóðar hennar von sem er

að horfast í augu við Glám í fylgd með sér.


föstudagur
jan.162009

Harmljóð útrásarvíkings

Flestallt hefur gengið mér úr greipum

ég geld þess enn sem var mín stærsta synd,

við mér blasir ógn og áttavilla

því augu mín vóru haldin,dauð og blind.

 

Enginn fær lifað lífi nokkurs annars

né leitað þess sem öðrum fellur til,

því enginn fær notið óskastunda þeirra

sem öðrum er skapað og honum er í vil.

 

Líf mitt var eldur, askan fýkur þangað

sem örlögin blása og veröld okkar deyr,

þangað sem blóm úr auðn og akri vaxa

og ævin breytist í mold og harðan leir.

föstudagur
jan.162009

Framtíðarsýn fundastjórans

Hér stend ég einn og egni öngul minn

á öllum þessum fundum sem ég stjórna,

samt gerist ekkert, allir hugsa um sinn

auma hag og skuldir sinna fórna.

 

Ekkert gerist,enginn segir neitt,

allir flýja brott af þessu sviði,

að vísu hefur enginn annan meitt

því allir hverfa burt í spekt og friði.

 

En jörðin rís og framtíð fersk og ný

mun fagna mér og styðja á allar lundir,

því ég mun áfram reyna að ráða því

sem ráðaleysið megnar nú um stundir.

föstudagur
jan.162009

Kristján fjallaskáld

Skorti í senn trú

til að lifa og trú

til að deyja

                   Matthías Viðar,Dimmir dagar

 

Þitt líf var aðeins ógn og brotinn reyr

og ótal vindar blésu við það strá,

svo myrkvast sólin , menguð jörðin deyr

sem morgundögg við grös og brýndan ljá,

 

en samt var lífið sól og vor í bland

og söngur fugls við himinbláa von

og samt var eitthvað yndælt við það land

sem áðurfyr var kallað gamla frón.

 

En tíminn líður,eitt er alveg víst

að ósinn bíður, líf þitt týndist þar

sem líf þitt þráði ei og allra sízt

og ekkert meir en það sem fyrrum var,

 

því allt var þetta ekkert sem þú vildir

og ennþá síður skildir.

 

 

föstudagur
jan.162009

Saknaðarljóð Dalís

            “Hún getur aldrei dáið”

Dalí 10.júní 1982

Gala er dáin , grundvöllurinn brostinn,

hún gekk í burt með tign sem henni ber,

ég er þá einnig ógn og dauða lostinn

og ást og gleði deyja senn í mér.

 

Hún var mér allt og ást mín fylgir henni

að endalokum þess sem fyrrum var,

þótt sinueldar ævi hennar brenni

í augum mínum, deyr hún líka þar.

 

Svo leggur dauðinn lokahendur sínar

á líf sem engum tekst að vaxa frá,

og allt er hljótt um uppákomur mínar

og allt mitt líf sem brunnið sinustrá.

 

fimmtudagur
des.182008

Lokuð skel

Lokuð

skel

 

Í náttúrunni eru engar reglur,

því eru þessar reglur fyrir mig

 

í bátnum þínum eru engar neglur,

því eru þessar neglur fyrir þig.

 

þannig er lífið leyndardómur og spurn,

lævís grunur undir harðri skurn.