fimmtudagur
des.182008

Kristján  fjallaskáld

 

Kristján

fjallaskáld

 

Skorti í senn trú

til að lifa og trú

til að deyja

Matthías Viðar,Dimmir dagar

 

 

Þitt líf var aðeins ógn og brotinn reyr

og ótal vindar blésu við það strá,

svo myrkvast sólin , menguð jörðin deyr

sem morgundögg við grös og brýndan ljá,

 

en samt var lífið sól og vor í bland

og söngur fugls við himinbláa von

og samt var eitthvað yndælt við það land

sem áðurfyr var kallað gamla frón.

 

En tíminn líður,eitt er alveg víst

að ósinn bíður, líf þitt týndist þar

sem líf þitt þráði ei og allra sízt

og ekkert meir en það sem fyrrum var,

 

því allt var þetta ekkert sem þú vildir

og ennþá síður skildir.

 

fimmtudagur
des.182008

Saknaðarljóð  Dalís

 

Saknaðarljóð

Dalís

“Hún getur aldrei dáið”

Dalí 10.júní 1982

 

Gala er dáin , grundvöllurinn brostinn,

hún gekk í burt með tign sem henni ber,

ég er þá einnig ógn og dauða lostinn

og ást og gleði deyja senn í mér.

 

Hún var mér allt og ást mín fylgir henni

að endalokum þess sem fyrrum var,

þótt sinueldar ævi hennar brenni

í augum mínum, deyr hún líka þar.

 

Svo leggur dauðinn lokahendur sínar

á líf sem engum tekst að vaxa frá,

og allt er hljótt um uppákomur mínar

og allt mitt líf sem brunnið sinustrá.

 

fimmtudagur
okt.232008

Á vígvelli siðmenningar VI.

 

Nú mun hún sökkvast, okt.'08

Völuspá

...Hvort er það líf samt leiftur eða grátur
sem lifað er á hafsins yztu nöf

hvort er það líf sem spónabrotinn bátur
og brestur dauðans enn við nyrztu höf,

hvort er það nýrra tíma tízkuhlátur
og tálsýn enn við kalda vota gröf

hvort er þinn hugur leikur brims við boða,
brimsalt haf eða lognhvít klettafroða?.,....

...Hvort breiðir út faðminn mót Fróni sú mammonsgóða
framtíð sem nú er hvarvetna að allra dómi
efst á baugi í baráttu smæstu þjóða
við basl og örbirgð,
virðing okkar og sómi
er vandasöm fylgd við fjármagn og ofsagróða
þegar fegurð asksins er líkust deyjandi hjómi

og níðhöggs tennur nærast þar við rót
sem nýöld mammons fremur sín heiðnu blót......

...En akurinn bleiki ber okkur ilm af degi
sem breiðir út faðm mót þjóð á villigötum,

það er undarleg birta og enginn sérstakur tregi
á þeim óvissu leiðum sem við í blindni rötum

því það er um þetta eins og veglausa vegi
að væntingin saknar einskis af því sem við glötum

því hún er bundin við baslið í okkur sjálfum,
þennan brothætta mun á sterkum vilja og hálfum....

Hrunadansinn, 2005

 

Land,1

Land mitt
gömul minning,

ég á flótta
undan minningu..

 

Land,2

Land mitt
draumur sólar
við jökul,

nú martröð.

 

Land,3

Land mitt
kalið í rót,

dró að sér
flugur
unz frysti við rót.

 

Land,4

Land mitt
haustfölur máni,

glottir.

 

Land,5

Land mitt
eyðibýli,

göngum
á sauðskiinnsskóm
eftir fjárlausum
götum

yfir hjarnhvítar
heiðar.

 

Land,6

Land mitt
sæluhúslaus
Fróðárheiði,

vindsár
undir svipuhöggum
Hreggnasa.

 

Land,7

Land mitt
einmana risi,

kallar hann okkur
eitt af öðru

inní Lómagnúp tímans.

 

Land,8

Land mitt,

mitt einmana
land

senn kemur sólskinsblettur
í heiði,

koma vorgræn
grös

kemur lauf

senn rís hún aftur

jörðin.

 

1.

Nú þegar íslenzka efnahagsundrið er orðið að efnahagsviðundri eins og Egill Helgason ku hafa sagt svo hnyttilega finnst mér ekki úr vegi að vitna í nokkur atriði sem um það fjalla í greinaflokki mínum Á vígvelli siðmenningar og þá einungis til þess að minna á,hvað í raun og veru gerðist þegar íslenzka efnahafgskerfið hrundi og dansinn í Hruna er á enda.Veizlunni lokið,peningarnir horfnir til útlanda og ekkert eftir í pípuhatti þotuliðsins nema gamla kanínan,margnotaða.
Þeir voru kallaðir útrásarvíkingarnir og fengu útflutningsverðlaun forsetans.Fyrir hvað,að selja íslenzkar vörur?Nei ,fyrir að flytja út eignir og sparifé fólksins í landinu og kaupa tuskubúðir erlendis.Fóru með höndina inní gin úlfsins og misstu hana.
Fengu milljarðalán í íslenzkum bönkum og ógnuðu umhverfinu.Reka fjölmiðla og vega að ímynduðum andstæðingum,einkum í DV,en þó einnig víðar.
Fóru í hlutverk dönsku selstöðukaupmannanna og tæmdu bankana sem nú eru eins og gömul minnismerki,hrundir kastalar.
Og heyra sögunni til.
Um þetta hef ég verið að skrifa hér á síðunni undan farin misseri eins og lesendur vita og nú ástæða til að rifja það upp.
Búið var að tæma sjóði Icelandair og flytja úr landi og mátti þakka fyrir að þetta hvað mikilvægasta fyrirtæki landsins hélt velli.Og spjarar sig vel eins og sjá má af síðustu fréttatilkynningu félagsins sem nú er að græða einhverja milljarða.
Örlög þess sýna þó að íslenzka ríkið verður að ábyrgjast jafn miðlæg fyrirtæki í þjóðlífi Íslendinga.Það á einnig við um bankana og kemur markaðsstefnu ekkert við.Ævintýramenn geta ekki kastað á milli sín fjöregginu eins og skessurnar forðum,án eftirlits.

Í þessum hamagangi öllum þjónar ritstjóri DV,Reynir Traustason ( og eigendurnir í kringum hann) ,hagsmunum sínum og telur þessa blekkingu nýja blaðamennsku !! Bankarán Davíðs Oddssonar,hrópaði DV,þegar eigendur Glitnis báðu um hjálp !
Hvaðan skyldi þetta bergmál hafa komið ?!
Kauþing,það er önnur saga.Það er brezkt hneyksli og ofbeldi,hvað sem aðdragandanum líður.Þar var fyrirtæki sett á hausinn sem átti fyrir skuldum,að sagt er.
Þar fór handleggur í gin brezka ljónsins.
Og þó var háskasamlegast hvernig Brown forsætisráðherra talaði um þjóðargjaldþrot Íslendinga á örlagastund,það hefur kostað okkur blóð og svita.Kannski dulin hefnd fyrir þorskastríðin,ég veit það ekki.
Ég var í Bandaríkjunum þegar þorskblokkin lækkaði um 2 sent og sendi frétt um það í Morgunblaðið.Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra,var fljótur að skilja hættuna og varaði við henni,mig minnir þegar í stað í Reykjavíkurbréfi.Enginn var honum fremri,þegar grípa þurfti til pólitískra úrræða.
En kreppan skall á.
Fyrst við lifðum þetta áhlaup af , þetta högg að rótum íslenzks efnahagslífs, þá hljótum við að gera það einnig nú. Ég minnist þess ekki að neinn talaði um ríkisgjaldþrot 1967,kannski var það vegna þess að bankarnir voru í ríkiseigu og nutu mikils trausts útlendra skjólstæðinga sinna,enda var þeim stýrt af varkárni og ihaldssemi.Nú hafa þeir verið í einkaeign og traustið augsýnilega ekki að sama skapi og áður,því miður.Aldrei hefðu gömlu karlarnir lánað ævintýramönnum milljarðahundruð til að slá um sig í innantómum tízkuheimi. Þeir hugsuðu um annað en áhættur sem gætu komið þjóðinni á kaldan klaka.
Þeir höfðu torfbæjamenningu í blóðinu eins og henni er lýst í málverkum Gunnlaugs Schevings.

Þegar bandarískur þingmaður var að því spurður hvort hann ætlaði ekki að greiða atkvæði með björgunarleið Bush forseta, svaraði hann því til að hann vildi varðveita skattpeninga fólksins.
Nei,þetta er sósíalismi, sagði hann, þetta er óamerísk leið.Ég mun ekkert gera til að bjarga " the crooks " !
Ég lái honum ekki,en svo var björgunin keyrð í gegnum þingið til að vernda fasteignir fólksins
Slík björgunarleið hefur einnig verið farin hér heima,en enginn veit hvort hún dugar.Forráðamenn ríkisins hafa að mér sýnist staðið sig vel í brimgarðinum,án þess ég tali um aðdragandann.
Nú er lag,sögðu karlarnir í Stokkseyrarfjöru og komust oftast í gegnum boðana.
En stundum urðu slys..

 

áfram >>

 

föstudagur
sep.122008

Sannleikurinn mun gjör yður frjálsa

Sannleikurinn mun gjör yður frjálsa
eftir Hallgrím Sveinsson (Morgunblaðið - 3. september 2008)


þriðjudagur
sep.022008

Guðjón Friðriksson segir rangt með farið í dagbókum Matthíasar

Orðsending til Matthíasar Johannessen, birt í Morgunblaðinu föstudaginn 29. ágúst, 2008.

Guðjón Friðriksson segir rangt með farið í dagbókum Matthíasar: "En á einum stað í þessum færslum er spunnin upp um mig slík lygaþvæla að ég get ekki annað en beðið þig að taka hana af netinu."


KOMDU sæll, Matthías.

Dagbækur þínar eru um þessar mundir töluvert í umræðunni og greinilega hafa margir orðið til þess að lesa þær. Til vitnis um það er að mér hafa borist fregnir úr fleiri en einni átt um að þar sé að finna um mig umfjöllun í færslum ársins 1998. Ég fór því að forvitnast og fann skrif um mig á nokkrum stöðum. Mér er sama þó að um mig og mín verk falli dómar og hirði yfirleitt ekki um að svara þeim. En á einum stað í þessum færslum er spunnin upp um mig slík lygaþvæla að ég get ekki annað en beðið þig að taka hana af netinu og helst strika yfir hana í dagbókinni. Ég vil síður að hún verði heimfærð upp á mig einhvern tíma seinna. Þú hefur söguna eftir Jennu Jensdóttur rithöfundi sem ég hef aldrei átt í neinum illdeilum við og þekki raunar.
Sagan gengur út á að ég hafi kennt stúlku að nafni Jóhanna Eiríksdóttur í Ármúlaskóla, hún hafi skrifað ritgerð upp á 9 um ljóð þín en ég gefið henni 4 í einkunn.
Síðan segir í dagbókarfærslunni: „Jóhanna bar sig upp undan þessu við Jennu, fyrrverandi kennara sinn, en hún tók málið upp við Kristján J. Gunnarsson, fyrrum fræðslumálastjóra, sem síðar hefur fengist við skáldskap og ort nokkrar ljóðabækur, auk skáldsögu; góður maður og gegn. Hann trúði vart því sem hann heyrði, hafði samband við Magnús skólastjóra Ármúlaskóla og kallaði inn allar ritgerðirnar svo unnt yrði að fara yfir þær og bera saman. Þá kom í ljós að ritgerð Jóhönnu var upp á 9. Það kom engum á óvart sem til þekktu. En upp úr þessu var Guðjóni Friðrikssyni sagt upp og hrökklaðist hann þá til Ísafjarðar. Þar gerði hann sér lítið fyrir og hóf ofsóknir á hendur Jennu og Hreiðari sem barnabókahöfundum. Það voru hefndirnar.“
Síðan fylgir hæfileg útlegging þín á innræti mínu og pólitískum skoðunum en slíkt læt ég mér í léttu rúmi liggja.
Um þetta er í stuttu máli það að segja að ég hef aldrei kennt Jóhönnu Eiríksdóttur, aldrei kennt í Ármúlaskóla, aldrei svo ég muni í kennaratíð minni fengið ritgerð í hendur um ljóð Matthíasar Johannessen, aldrei verið kærður fyrir einkunnagjöf, aldrei verið sagt upp störfum við neinn skóla, þaðan af síður hrökklast til Ísafjarðar og aldrei ofsótt Jennu og Hreiðar. Ég var hins vegar kennari í 3 ár við Menntaskólann á Ísafirði af fúsum og frjálsum vilja en það er önnur saga.
Þú gerir þetta fyrir mig.

Kær kveðja.
Höfundur er sagnfræðingur.

Yfirlýsing Guðjóns

Í dagbókarfærslu Matthíasar Johannessen 7.október 1998 er frásögn af meintum samskiptum mínum við Jóhönnu Eiríksdóttur og skólayfirvöld í Ármúlaskóla. Frásögnin er í öllum atriðum röng og er annaðhvort sprottin af misskilningi eða á við um annan mann enda hef ég aldrei kennt við Ármúlaskóla. Matthías hefur í dag beðist afsökunar á þessu og við höfum náð fullri sátt um hvernig með skuli fara.

Reykjavík 31.ágúst 2008.

Guðjón Friðriksson


þriðjudagur
sep.022008

Viðtökur

Ólafs saga og dagbækurnar

Finnst rétt að birta hér á síðunni minni tölvupósta okkar Guðmundar Andra,ef einhverjum þykir það hynýsilegt. Þeir eru svohljóðandi


16.08.2008, skrifaði Guðmundur Andri svohljóðandi tölvupósti til Matthíasar:

Sæll Matthías,

Ég hef lesið í dagbókum þínum með athygli og verð að segja að mér
þykir mikið til um það hispursleysi sem þær sýna og það hugrekki að
deila þeim með okkur hinum. Þær munu verða ómetanleg heimild þegar
fram líða stundir  - ekki bara um mikla umbrotatíma og þátttöku þína
í þeim, heldur líka víðfeðman og vakandi anda skáldsins, miklar
mótsetningar og viðkvæmni en líka áhuga á fólki -  og náttúrlega
fordóma eins og fljúga gegnum huga okkar allra daglega.

Árið 1998 víkur þú nokkuð að mér í kjölfar þess að ég hafði farið
nokkrum orðum um ævisögu Ólafs Thors í blaðagrein um Guðjón Friðriksson.

Í dagbókarfærslunum er á þér að skilja að ég sé ofmetinn höfundur,
skáldsaga mín Íslandsförin hafi hlotið of góðar viðtökur, og er mér
meira að segja skipað á skrumbekkinn hjá sjálfum Ólafi Jóhanni
Ólafssyni. Það er að sjálfsögðu fjarri lagi því bókin var ekki
auglýst umfram tilefni, en hitt kann að vera  rétt að einhverjir hafi
orðið til þess að hrósa bókinni meira en hún átti skilið - ég satt að
segja veit það ekki - dómarnir skiptust mjög í tvö horn, en hún gekk
prýðilega.

Mér þykir gæta misskilnings hjá þér varðandi ummæli mín um ævisögu
Ólafs Thors þó að ég skilji hvers vegna þér gremjast þau og vel megi
vera að þau hafi verið heldur hvatvísleg. Að vísu er ég ekki duglegur
að halda til haga gömlum pistlum en ég þykist þó muna hvað ég var að
hugsa. Þér skjátlast þegar þú telur að ánægja mín með bækur Guðjóns
hafi ekki verið einlæg eða einungis sett fram til að varpa rýrð á
þitt verk. Ég var fyrst og fremst að hugsa um Guðjón. Og þarna
skrifaði ég sem starfsmaður á bókaforlagi, ötull lesandi ævisagna frá
barnsaldri og þátttakandi á íslenskum bókamarkaði, ekkert síður en
"vinstri maður". Ég hafði stundum velt því fyrir mér hvers vegna ekki
voru gefnar út ævisögur eða alþýðusagnfræði hér á landi í anda þess
sem tíðkast með öðrum þjóðum - einkum Bretum -  þar sem maður getur
kynnst persónu frá öllum hliðum, kostum og löstum, afrekum og
mistökum. Á sínum tíma hreifst ég mjög af bókum Þorsteins Thorarensen
um aldamótapólitíkina, þar sem skrifað var af innlifun og ástríðu og
spennandi tíma án þess þó að maður fyndi til þess að höfundurinn væri
í tilteknu liði. Sagnfræðingarnir virtust niðursokknir í strang-
akademísk efni en nálega einu ævisögurnar sem út komu voru
hálfpartinn á vegum stjórnmálaflokka, skrifaðar til að gera hlut
tiltekinna manna sem mestan og bestan og málstað andstæðinganna sem
verstan. Mér þóttu þetta vera bautasteinar. Hver skrifaði um sína
dauðu. Og allt dregið fram sem varpað gat sem jákvæðustu ljósi á
"okkar mann". Jón Guðnason skrifaði um Einar Olgeirsson, Vilhjálmur
frá Brekku um Eystein... Meira að segja hinn löngu dauði
Heimastjórnarflokkur sendi frá sér slíka heilagramannasögu um Hannes
Hafstein eftir frænda minn Kristján Albertsson.

Og þú skrifaðir um Ólaf Thors. Sú bók var að vísu mikið og vandað
verk, og í þeim skilningi ósanngjarnt hjá mér að dæma hana svo hart.
Hún var læsileg og full af merkilegum fróðleik, einkum úr
bréfaskiptum þeirra bræðra Ólafs og Thors (sem mér virðist að hafi
verið vanmetinn maður) - og já - einhvers konar mynd af Ólafi Thors
verður þar ljóslifandi. En það er myndin sem Sjálfstæðismenn hafa
alltaf verið að mála upp handa okkur. Þú dregur taum Ólafs í smáu og
stóru, ert sífellt að bera í bætifláka fyrir hann, jafnven þar sem
hann þarf ekki einu sinni á því að halda. Við fáum mynd af óskeikulum
manni sem engan breiskleika hafði, mildum en sterkum leiðtoga,
fyndnum og ljúfum manni... Með öðrum orðum: þetta er bók handa
hjörðinni hans, bók skrifuð fyrir Sjálfstæðismenn.  Og þar með ekki
ætluð okkur hinum - nema ef væri til að reyna að gera okkur að
Sjálfstæðismönnum.

Þetta er ekki skrifað vegna þess að ég eigi "í einhverju basli með
ætt [mína]" eins og þú orðar það í dagbókinni. Öðru nær, og hér er
eiginlega komin helsta ástæðan fyrir því að ég sendi þér línu. Í
hreinskilni sagt þá leiðist mér að sjá slík ummæli, algjörlega að
tilhæfulausu, því að mér þykir afar vænt um skyldmenni mín og ég var
mjög náinn Kristínu ömmu minni sem ég var mikið hjá á daginn sem
barn.  Ég ber mikla virðingu fyrir minningu þeirra hjóna Thors Jensen
og Margrétar Þorbjargar og er stoltur af því að vera kominn af þeim.
En ég er ekki þar fyrir í einhvers konar fylkingu - þetta er ekki
eins og Ásbirningar voru eða Sturlungar - þeir dagar eru liðnir og
koma aldrei aftur.  Ég get ekki tekið ábyrgð á öllu sem Ólafur Thors
gerði. Ég hitti manninn aldrei og hann dó þegar ég var barn og hann
hafði mig aldrei í ráðum um eitt eða neitt. Þaðan af síður ber mér
skylda til að hafa hann í dýrlingatölu...

Ég bið þig að afsaka þessa framhleypni en mig langaði að koma því á
framfæri - þó seint sé - að ummæli mín um bók þína voru ekki vakin af
persónulegri óvild, og raunar hvarflaði ekki að mér þá að þau kynnu
að vekja sárindi. Eflaust hefði ég mátt orða hugsanir mínar af meiri
nærgætni. En þetta var sem sé vakið af því að mér þótti í raun og
veru Guðjón vinna brautryðjandaverki í því að frelsa "íslensku
ævisöguna" undan veldi stjórnmálaflokkanna.

Með vinsemd og virðingu

Guðmundur Andri Thorsson

 

18.08.2008, skrifaði Matthías Guðmundi Andra svar í tölvupósti:

 Guðmundur minn Andri,kærar þakkir fyrir þitt góða bréf sem ég var að lesa nýkominn af Hólahátíð. Ég met það mikils og tek mark á öllu sem þú segir.Vil aðeins undirstrika að dagbókin er skrifuð fyrir löngu og í dag er ég ekki sammála öllu því sem þar stendur,eins og skiljanlegt er. Það voru tveir menn sem skrifuðu bókina ,rithöfundur og ritstjóri eins og augljóst er af efninu..En ég er ekkert endilega sammála þeim lengur.Fannst samt rétt að birta þetta óbreytt eins og ég upplifði það og vera ekki að geyma það inní dauða okkar allra.Fannst það aumingjalegt.En allt er þetta séð með mínum gleraugum síns tíma og verður að hafa það !  
Ólafur frændi þinn heillaði mig og verður líka að hafa það!

Bið þig afsökunar á ættarummælunum sem spruttu úr hita síns tíma og áður en ég kynntist þér.En ég met þig meir en þarna kemur fram og þannig hefur mér farið fram í ymsum efnum ! Met ykkur bræður báða og feðga af hlýjum hug og ekki sízt það sem þú hefur bezt skrifað.

Þú afsakar þessa fljótaskrift og gott væri einhvern tíma að hittast og krunka saman,þinn einl.Matthías

Sjá dagbók Matthíasar miðvikudag 14. jan. 1998


Jón Kaldal skrifar m.a. í Fréttablaðið :

Skiptar skoðanir eru á því hvort rétt sé hjá Matthíasi Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að opna aðgang að dagbókum sínum á netsíðu sinni matthias.is. Sérstaklega hafa verið settir fyrirvarar við allra nýjustu dagbókarfærslur hans, frá 1997 og 1998, sem bættust við eldri árganga á dögunum. Þar þykir Matthías meðal annars ganga fulldjarflega fram í frásögnum af því sem nafngreindir menn létu falla í einkasamtölum við hann.
Þetta eru óþarfa áhyggjur. Það er jákvætt og þarft verk hjá Matthíasi að opinbera þau trúnaðarsamtöl sem hann átti við dagbók sína þegar hann var ritstjóri Morgunblaðsins.
Færslur ritstjórans fyrrverandi eru merkileg söguleg heimild. Þeir sem lesa dagbækurnar þurfa þó að gæta sín á því að taka þær ekki of bókstaflega, því þær eru ekki endilega rétt heimild um samtímann eins og hann var í raun og veru.
Dagbækur Matthíasar eru hins vegar örugglega mjög nákvæm heimild um það hvernig höfundurinn upplifði samtíma sinn. Og jafnvel hvernig hann vill að hans sé minnst. Eða svo notuð séu orð Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem Matthías segir frá í einni færslu sinni: „Við eigum að skrifa söguna sjálfir, hinum er ekki treystandi til þess(!)"
Það er ekki síst að þessu leyti sem dagbækur Matthíasar eru stórfróðlegur lestur fyrir alla þá sem hafa áhuga á stjórnmálum, viðskiptalífi og fjölmiðlum. Og það í þessari röð.
Dagbækurnar gefa ómetanlega innsýn í hvernig ritstjórn Morgunblaðsins var flækt inn í ýmis mál á stjórnmálasviðinu og í viðskiptalífinu. Hlutverk ritstjóranna var gjarnan að ráðleggja við lausn mála, bera boð á milli manna, koma á samböndum og lægja öldur.....


Egill Helgason segir í blogginu sínu:

Það er hreint stórskemmtilegt og mikill fengur að því að Matthías Johannessen skuli birta dagbækur sínar á netinu.
Að vísu hefur upphafist mikill grát- og hneyklunarkór sem virðist helst vilja meina Matthíasi að gera þetta opinbert.
Það er sérlega heimóttarlegt viðhorf.
Hjá meiri menningarþjóðum en okkur eru dagbókaskrif sérstök bókmenntagrein. Það má til dæmis nefna dagbækur merkismanna sem hafa valdið hneykslan í Bretlandi á síðustu árum.
En þó aðallega mikilli skemmtan.
Dagbækur stjórnmálamannsins Alans Clark urðu efni í sjónvarpsseríu þar sem John Hurt lék aðallhutverkið. Hann sagði bæði frá stjórnmálaklækjum og kvennafari.
Svo eru það dagbækur Woodrows Wyatt sem var alltmúlígmaður í stjórnmálum og trúnaðarvinur Margrétar Thatcher en lét svo allt flakka í dagbókum sínum.
Ekki er heldur slor að lesa dagbækur Kenneths Williams, leikarans sem var frægastur fyrir hlutverk sín í Carry On myndunum. Þær eru eiginlega instant klassísk. Fullt af djúsí leikaraslúðri, en líka mynd af merkilega tilfinninganæmum manni.
Þeir sem gagnrýna Matthías eru algjörlega á villigötum. Við þurfum ekki fleira fólk sem þegir – heldur er ástæða til að hvetja fleiri til að skrifa dagbækur og ævisögur og hafa það allt sem hreinskilnast.
Nóg er af pempíuskapnum og skinhelginni.
Svo er mönnum algjörlega í sjálfsvald sett hvort þeir trúa því sem stendur í svona textum. Yfirleitt ber að varast það.


Enn bloggar Björn Bjarnason og segir:

Matthías Johannessen birtir á www.matthias.is dagbókarbrot. Þau eru svo krassandi, að eðlilegt væri fyrir fjölmiðla að kafa dýpra og kynna sér málið til hlítar. Þess í stað setjast menn eins og Hallgrímur Thorsteinsson í vandlætingarstólinn. Honum fer það illa.
Matthías er þaulvanur höfundur viðtala og ávann sér virðingu og traust sem slíkur. Hann hefur ávallt haft einstakt lag á að draga jafnframt upp mynd af viðmælendum sínum. Ég minnist þess frá unglingsárum, að Guðrúnu, ömmu minni, þótti nóg um bersögli Matthíasar í viðtölum undir samheitinu: Í fáum orðum sagt.
www.matthias.is rúmast ekki undir orðunum: Í fáum orðum sagt, en veldurenn ýmsum lesendum áhyggjum og kannski líka viðmælendum


Þorbjörn Broddasson, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir í sjónvarpi og á netinu:

Þorbjörn Broddasson, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir dagbækur Matthíasar Johannessen mjög forvitnilegar og dýrmætar og að hann sé að gera landsmönnum greiða með því að birta þær.
Í dagbókum Mathíasar Johannessen fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins er hægt að lesa samtöl hans við ýmsa framámenn í íslensku þjóðfélagi marga undanfara áratugi. Þar eru rakin samtöl hans til dæmis við Svavar Gestsson, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde.
Margir hafa bent á að þarna væri Matthías að bregðast trúnaði við þessa menn, sem hafi aldrei búist við því að samtölin við Matthias yrðu gerð opinber með því að birta þau á vefsíðu.
Doktor Þorbjörn Broddason prófessor við Háskóla Íslands hefur kennt fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands í yfir þrjátíu ár. Hann segir að ef ýmsir forystumenn íslenskrar vinstrihreyfingar hafi tekið upp á því að hitta ristjóra Morgunblaðsins sem skriftaföður, þá hafi þeir mátt búast við niðurstöðu af þessu tagi.

Stöð 2 spurði Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóra, hvort hann væri ekki að brjóta trúnað með dagbókarfærslum sínum. Hann svaraði: ,,Það sem var kannski trúnaður fyrir 30 til 40 árum er ekki trúnaður í dag, því ef svo væri þá væri engin saga.


miðvikudagur
ágú.202008

Viðbrögð og andsvar

Svofelld umsögn birtist í Morgunblaðinu í dag, 20.ágúst og finnst mér rétt að setja hana á heimasíðuna mína. Viðbrögð margra sem ég met mikils hafa verið með ágætum, annarra síðri. Sumir hafa gert sér far um að misskilja eitthvað sem þeir hafa tekið út úr textanum, en mér dettur ekki í hug að fara að þrasa um slíkt,t.a.m.áhyggjur ráðamanna á sínum, tíma af því,ef allir Íslendingar sætu ekki við sama borð, þegar heilsan bilar. Sagt er í dagbókinni að ráðherrar ætli að kanna það við Tryggingastofnun, eins og eðlilegt var án þess neitt annað lægi að baki, en æsingamenn sleppa öllu slíku,það hentar ekki í slagnum!

Annað hef ég ekki um þetta að segja í bili, enda veit ég af gamalli reynslu að illt er að egna óbilgjarnan..

En Morgunblaðsklausan er svohljóðandi :

„ENGUM hefur dottið í hug að ég væri að skrifa dagbækur sem bókmenntir. Það er eitt helsta markmið mitt," sagði Matthías Johannessen, skáld, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Dagbókarfærslur sem hann hefur birt á vef sínum, matthias.is , hafa hafa vakið mikla athygli. Þúsundir manna hafa heimsótt vefinn undanfarna daga.

„Sumir hafa afgreitt þessi dagbókarskrif mín flausturslega. Kafað grunnt. Enda kannski skiljanlegt því þetta eru nokkur þúsund blaðsíður í bókarformi sem hafa verið birtar nú þegar," sagði Matthías. „Það sem fjölmiðlarnir hafa tekið út úr textanum er ekki nein aðalatriði í dagbókum mínum. Jafnvel að mínu mati heldur smávægilegt í þessum skrifum. Út úr sumu hefur verið snúið eins og allir sjá sem lesa dagbækurnar vel. Ég er ekki að reyna að ná mér niður á einum eða neinum heldur að upplifa samtímaviðburði með þessum samtölum við sjálfan mig."

Matthías sagði að af þeirri mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af dagbókunum megi ætla að þær fjalli ekki um neitt annað en pólitískt dægurþras. Það er fjarri sanni.

„Dagbækurnar fjalla ekki síst um menningu, bókmenntir og alls kyns hugleiðingar. Þá eru einnig birt ljóð sem ekki hafa verið birt annars staðar. Ef einhver telur að það sé fengur að ljóðum mínum þá hlýtur að vera meiri fengur að þessum atriðum heldur en því sem fjölmiðlarnir hafa verið að slá upp," sagði Matthías.

Nýbirtar dagbækur Matthíasar eru frá árunum 1996 til 1998 og fáeinar færslur komnar frá 2001. Hann kvaðst eiga eftir að birta fleiri dagbókarfærslur frá árunum 1999 til 2001. Matthías sagði að dagbækurnar endurspegli hugmyndir hans og afstöðu. Lýsi honum sjálfsagt betur en öðrum.

„Þar er auðvitað ekki neinn endanlegur sannleikur né ljósmynd af þeim sem ég nefni. En sýnir þó hvernig ég upplifi viðmælendur mína. Þetta eru mín viðbrögð við umhverfinu. Mín sagnfræði. Hugverk mín sem ritstjóra og þó einkum rithöfundar og þá væntanlega eitthvað fróðlegar sem slíkar. Hver og einn sér umhverfið sínum augum án þess að lýsingar hans þurfi að vera ósannar, eins og sumir eru að reyna að koma inn hjá fólki."

Matthías telur fjarri því að hann sé að brjóta trúnað við viðmælendur sína með því að vitna í gömul samtöl.

„Það sem var trúnaður fyrir áratug eða meira er enginn trúnaður í dag. Ef svo væri þá hefðum við aldrei eignast neina sagnfræði," sagði Matthías. „Sumir telja að ég hafi brotið trúnað með því að birta þetta núna en gagnrýna svo okkur Morgunblaðsmenn fyrir að hafa ekki birt þetta á sínum tíma. Það gerðum við auðvitað af því að það var trúnaðarmál á þeim tíma. Nú hefur þetta allt fyrnst. Í staðinn fyrir að leggja þetta til hliðar og birta þegar við erum öll dauð þá fannst mér ég ætti að setja þetta á Netið núna svo að menn sæju hvernig ég upplifði mitt umhverfi sem ritstjóri og rithöfundur. Og gætu þá veitt sín andsvör eins og einhverjir hafa gert." gudni@mbl.is


Matthías

föstudagur
ágú.152008

Árið 1998 (seinni hluti)

5. apríl, sunnudagur

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf eftir upplestrarferðina til Englands:

Útlönd eru að minnsta kosti tveir heimar. Þeir eiga að sjálfsögðu margt sameiginlegt því að þeir eiga rætur í samfélagi sem er ein heild og eitt þjóðfélag. En þegar nánar er að gætt eru ótal vistarverur í þessu sama þjóðfélagi, kjör fólks, áhugamál og afstaða svo ólík að fremur mætti tala um að nútímaþjóðfélag sé saman sett af mörgum litlum samfélögum sem eru jafn ólík og þau eru mörg, þótt ákveðnir þættir haldi þeim einkum saman og má þar fyrst og síðast nefna arfleifðina og tungumálið. Ef tala mætti um almenningsálitið í tengslum við þessi samfélög er enginn vafi á því að það sækir næringu, fyrirmyndir og jafnvel fyrirmæli í fjölmiðlana sem ráða ferðinni í nútíma þjóðfélagi, ákveða að mestu hvað um er rætt og hverja afstöðu fólk skuli hafa. Þetta er samfélag fjöldans sem hugsar að mestu um það sem er uppi á teningnum hverju sinni. En svo eru aðrir þættir sem eru jafn mikilvægir og ekki síður áhrifamiklir þegar upp er staðið þótt þeir nái til miklu færri og sæki fremur afstöðu í margvíslega þekkingu en þau dægurmál sem eru efst á baugi í fjölmiðlum hverju sinni. Þeir sem ferðast og þurfa að tala við fólk í útlöndum verða að sjálfsögðu varir við þennan mikla mun. Því meiri fjöldi, því skarpari skil. Það dettur engum í hug að almenningur í nágrannalöndum okkar í Evrópu sé að velta fyrir sér íslenzku þjóðfélagi, forsendum þess og arfleifð. Þessi sami almenningur heyrir að vísu eitt og annað um fyrirbærið Ísland án þess það komi honum frekar við en aðrar þær
dægurflugur sem verða á vegi hans. Samt er hægt að nota þessar dægurflugur í landkynningarstarfsemi og hefur það verið óspart gert. Um það er ekkert nema gott eitt að segja.


áfram >>



föstudagur
ágú.152008

Árið 1997 (seinni hluti)

28. maí, miðvikudagur

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu um atburðina 30. marz 1949 eftir Leif Sveinsson. Hann gerir lítið úr bók  Vals Ingimundarsonar sagnfræðings, Í eldlínu kalda stríðsins, og afgreiðir hana með billegum hætti. Skil ekki hvað honum gengur til. Meginviðfangsefni greinarinnar er þó að koma höggi á Sigurjón lögreglustjóra Sigurðsson sem situr nú á friðarstóli, 81 árs gamall.

Leifur segir:
“Sem dæmi um fálmkennda stjórn Sigurjóns má nefna, að hann gaf út þá skipun, að varaliðsmenn skyldu fara út án hjálma og kylfa, en bera aðeins borða á handlegg. Þegar boðum var komið til Bjarna Benediktssonar um þessa vanhugsuðu skipun Sigurjóns ómerkti hann þegar skipunina með þessum orðum: “Allir út með hjálma og kylfur.” Mátti því segja að Bjarni hefði tekið stjórn lögreglumálanna í sínar hendur.”

áfram >>
mánudagur
júl.212008

Árið 1997 (fyrri hluti)

Á þrettándanum

Hef verið að kynna mér Tíbezku bókina um líf og dauða. Það er harla athyglisverð lesning. Það er margt fallegt í Búddatrú, hún er mér að mörgu leyti mjög að skapi. Hún er einhvers konar kristindómur án Krists, án fyrirheita hans um eilíft himneskt líf hvers og eins.

Siddharta hefur verið merkilegur maður. Mér skilst  hann hafi verið uppi í Asíu um svipað leyti og Sókrates var á dögum í Aþenu.
Það er mjög fallegt hvernig búddatrúarmenn eiga að hugsa um dauðann og þá sem farnir eru. Þeir eiga að hjálpa þeim að deyja, hugsa vel og hlýlega til þeirra og láta hlýjar og góðar hugsanir fylgja þeim inn í eilífðina.
Búddafræði hika ekkert við að nefna helvíti sem hugarástand ef ég skil boðskapinn rétt. Annars er hann víst helzt fólginn í því að losa menn undan hatri og reiði og því sem þeir girnast en hafa enga þörf fyrir.
Þetta þykir mér góður boðskapur. Að líkamsdauða loknum hefst nýtt líf og er engu líkara en búddatrúarmenn telji sig hafa rannsakað það mjög nákvæmlega. Eftir dauðastundina upplifir hinn látni einhvers konar framhaldslíf, hið góða sem hann geymir úr lífinu og hið illa eða helvíti. Það rennur hægt upp fyrir honum að hann er dáinn, sporlaust gengur hann um milli dauðra og lifenda en getur ekki gert vart við sig; engin spor, enginn skuggi. Þá rennur upp fyrir honum ljós, jarðvistinni er lokið og hin eilífa eða himneska för er hafin. Senn hefst darmata eða chong ji eins og Tíbetar kalla það víst. Hugarorkan tekur við af líkamsorkunni. Fram að því skilst mér að hinn framliðni telji að hann hafi jarðsneskan líkama þótt svo sé ekki.
Smám saman fæðist hann inn í þennan andlega líkama og eftir darmata hefst fæðing úr einu lífi í annað sem er einskonar hugarlíkami og minnir á þann líkama sem hinn látni skilur eftir hérna meginn grafar. Án þessarar upplifunar er hann í einhvers konar tómarúmi. Síðan hefst dómurinn yfir honum og hann er sjálfur í senn hinn dæmdi og dómarinn.
Það er góðs viti!

Það má segja að þessar hugleiðingar mínar hafi orðið neistinn að nokkuð löngu kvæði sem ég lauk við á afmælinu mínu 3. janúar og heitir Samtal við Siddharta.

áfram >>


föstudagur
júl.112008

Dagbækur árin 1996, 1997 og 1998

1996 (fyrsti hluti) - áfram >>

1996 (annar hluti) - áfram >>

1996 (þriðji hluti) - áfram >>

1997 (fyrri hluti) - áfram >>

1997 (seinni hluti) - áfram >>

1998 (fyrri hluti) - áfram >>

1998 (seinni hluti) - áfram >>

föstudagur
júl.112008

Á vígvelli siðmenningar V.

mynd.jpg

 

Af
bjálfum
og beinakerlingum


1.
Nú er svo komið að ég get ekki orða bundizt vegna síðustu Baugsgreinar Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu.Hún er að vísu ósannindavaðall og gömul klissja. Dómsmálaráðherra kallar hana bjálfalegustu grein sem Hallgrímur hefur skrifað – og er þá mikið sagt !! Björn Bjarnason segir að embætti ríkislögreglustjóra hafi,að sjálfsögðu  undir stjórn Haralds, “sinnt öllum sínum skyldum í flóknum og erfiðum málum “.
Auk þess hefur embættið staðizt stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar með miklum ágætum og endurheimt stórfé ríkinu til handa vegna skattarannsókna efnahagsbrotadeildar undanfarin 10 ár. Skyldu þær rannsóknir ekki hafa skilað í ríkissjóð hundruðum milljóna, kannski meiru.  Hvernig væri að fjármálaráðuneytið birti þær fjárhæðir.

Og einnig upplýsingar um hverju rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á Baugsfélögunum og einstaklingum á þeirra vegum hefur þegar skilað ríkissjóði í formi endurákvarðana opinberra gjalda og viðurlaga vegna skattaundanskota. Fróðlegt væri að vita hversu mörg Baugsfélög og einstaklingar ættu þar hlut að máli.
Þessum málum er öllum lokið í skattkerfinu svo unnt er að upplýsa almenning um þau, þó ekki væri til annars  en segja þjóðinni hvað Baugsrannsókn  ríkislögreglustjóra hefur þegar skilað háum fjárhæðum í ríkissjóð?  

Hvernig væri að stjórnmálamenn sem hæst láta óski eftir upplysingum um þessar fjárhæðir og birti þær opinberlega, þeir sem fullyrða að eftirtekja rannsóknar ríkislögreglustjóra hafi verið rýr.
Þessar tölur eru til.
Skipta þær kannski milljónahundruðum? ´
Getur fjármálaráðuneytið ekki upplýst okkur um þessa fjárhæð? Nær þöggun Baugsmiðlanna einnig inn í fjármálaráðuneytið?  Eru árásir DV á Árna Mathíesen kannski liður í  einhverjum hótunum ?

Svo er enn eitt mál, meint skattsvikamál, til meðferðar hjá Rúnari Guðjónssyni, settum ríkislögreglustjóra og Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrotadeildar.
En því máli er ólokið.


2.

Eitt atriði sýnir í hnotskorn hvernig höfundur fyrrnefndrar greinar stendur að málflutningi sínum.
Mér er málið skylt sem gömlum ritstjóra Morgunblaðsins og finnst rétt að sannleikurinn sé sagður, úr því sem komið er.

Í grein Hallgríms segir að Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn hafi gengið í það að leggja landsprófið niður,þegar Haraldur  féll á prófinu ! Nú eru um fjörutíu ár síðan,en Haraldur var 15 ára,þegar hann vegna skyndilegs andláts í fjölskyldu okkar hætti við landsprófið í miðju prófi,en tók það síðar. Til þessa hefur skýringin verið einkamál fjölskyldu okkar.

Annað gerðist ekki og kom hvorki Morgunblaðinu né  Sjálfstæðisflokknum við. En hundstungan  er næm og í þessu tilfelli er hún að sleikja upp  álygar sem reynt var að nota gegn mér fyrir nær hálfri öld,því að Alþýðublaðið kastaði þessari lygaþvælu fram á sínum tíma til að koma á mig höggi,þegar  Morgunblaðið var í miðri baráttu til að endurbæta fræðslukerfið og þar með landsprófið.
Með miklum og góðum árangri.

En þá voru svona neðanbeltishögg notuð,ef því var að skipta, eins og í dag.

Gegn mengun hugarfarsins eru fá , góð ráð,því rógurinn lifir ekki án endurtekninga.

Og nú eftir allan þennan tíma kemur alkunn kjaftakerling , Hallgrímur Helgason, á snærum Baugs og vegur í sama knérunn.
Síðan er þvælan endurtekin í öllum fjölmiðlum Baugs, fyrst í Fréttablaðinu, síðan visir.is og loks á dv.is !!

Semsagt,rógur í skjóli auðvalds

Við áttum marga  merka bandamenn í þessu fræðslustríði á sínum tíma,Jóhann S. Hannesson skólastjóra og Kristján J Gunnarsson fræðslumálastjóra svo ég nefni einungis tvo, og  að því kom eftir harða baráttu að grundvallarbreytingar voru gerðar á  skólakerfi landsins.
En aldrei datt mér í hug að  gamlar álygar yrðu notaðar gegn syni mínum alsaklausum áratugum síðar.

Lítilla sanda, lítilla sæva , lítil eru geð guma , segir í Hávamálum og augljóst við hverja er átt.
Þá sem eru smáir í sniðum og lítilfjörlegir og eru sífelldlega að falla í  hörðum skóla lífsins.

 áfram >>


fimmtudagur
jún.122008

Á vígvelli siðmenningar IV.

1. kafli

Jæja,þá liggur Baugsdómurinn fyrir. Og niðurstaðan kemur ekki á óvart,óhjákvæmilegt að rannsaka málið,þegar það var kært upphaflega. Almenningshlutafélögin verða betur varin fyrir allskyns peningamöndli hins gráðuga auðvalds en áður var.

Og slegið á puttana á þeim sem halda þeir eigi peninga annars fólks. Og svo verða menn að fara að lögum,jafnvel auðmenn!
Þótt ekki séu allir sammála um það.

En það sem vakti mesta athygli mína,auk fangelsisdómanna (sjá þá á heimasíðu hæstaréttar ), er sú niðurstaða réttarins að ýmsar lánveitingar Baugs til ráðandi hluthafa eða félaga í þeirra eigu hafi verið ólögmætar, en fyrntar vegna  niðurstöðu héraðsdóms. Af þeim sökum vildi Páll Hreiunsson hæstaréttardómari senda þann þátt málsins aftur í hérað og láta á það reyna,því það þyrfti ekki endilega að vera lokaorðið,þar sem um fangelsisdóm hefði getað verið að ræða og slíkt fyrnist ekki. Ef þetta voru mistök,voru þau framin í héraðsdómi.

áfram >>

mánudagur
apr.212008

Dagbók árið 1995 (síðari hluti)

20. júní – þriðjudagur

Okkur Styrmi greinir sjaldan á, eiginlega aldrei. Og þó vorum við í kvöld ekki sömu skoðunar um birtingu á gagnrýni brezkra blaða um söng Kristjáns Jóhannssonar í Grímudansleik Verdis í Covent Garden í London.

Ég sagði að við mundum ekki birta neinn dóm ef okkur bærist einungis ein niðursallandi grein, því að við vissum að fleiri greinar hefðu birzt í brezkum blöðum og það væri ræfildómur af okkur að birta ekki alla dómana á morgun.

En við fengum ekki nema einn dóm, hann er eftir Andrew Porter, gagnrýnanda The Observer.

Ég leit á þennan dóm og sá í hendi mér að hann var bæði neikvæður og jákvæður og var því þeirrar skoðunar að það mætti birta hann einan.

áfram >>

fimmtudagur
apr.032008

Dagbók árið 1995 (fyrri hluti)

Nýársnótt

Stöndum ein

við grafhýsi

vængdauðra minninga;

sólgulur uggi

á ljósfælnu stjörnuhafi;

perlandi myrkur

við titrandi glerhimin;

stöndum ein

við skugga af flöktandi

báli;

ein undir smáljósakransi

og fölnandi stjörnum.

 

Nýársdagur

Fórum í boð til Rutar og Björns Bjarnasonar í kvöld. Það hefur nánast verið venja eftir að Bjarni og Sigríður dóu; minnir á gömlu góðu dagana í Háuhlíð.

Ósköp indælt að venju.

Talaði við Davíð Oddsson og fór vel á með okkur. Töluðum út um ýmislegt enda vorum við báðir þokkalega kenndir; þó ekkert meira en það!

Sá að eitthvað sérstakt hvíldi á Davíð þegar hann fór allt í einu að segja mér frá því hversu mjög honum hefði sárnað leiðari Morgunblaðsins þegar Ráðhúsið var tekið í notkun.

Hann hafði ætlað að vitna í Tjarnar-ljóð eftir mig, og það vissi ég raunar, vegna þess að hann sendi okkur Styrmi bréf um vonbrigði sín og reiði á sínum tíma vegna gagnrýni Morgunblaðsins á það, hvernig vígslu ráðhússins var háttað.

En nú vissi ég það í fyrsta skipti að Davíð hafði látið skrifa ljóðið í rúðu sem átti að setja í Ráðhúsið eins og gert var við kvæði eftir Tómas.

 áfram >>

 

fimmtudagur
apr.032008

Dagbók árið 1994

Ódagssett

Regn í ágúst

Frakkalaus gekk ég

inní laufgaðan

kirkjugarðinn

þá fór hann að rigna, Ég

hugsaði, Ekki þurfa þau

regnhlíf

og leitaði skjóls

undir þéttgreinóttri

regnhlíf stærsta barrtrésins

þar höfðum við áður staðið

tvö ein

og þú sagðir, Trén hafa

augu

Ósýnileg einsog þau

undir laufskuggum

tímans.

Það var sumar einsog nú

við reyndum að vefja

lífinu um fingur okkar

og droparnir hrundu

af barrnálunum,

einn og frakkalaus stóð ég

skúrina af mér

undir skjólgóðri

regnhlíf dauðans, hugsaði

í fyrsta sinn um ótvíræðan

ávinning dauðans.

 

Sumar

1.

Tónskáldið Saint-Saëns sagði um Berlioz að hann hefði einsog aðrir góðir listamenn haft ofnæmi fyrir því grófa og óheflaða í þjóðfélaginu og því ekki þolað það. Hann hafi hatað það sem hann kallar profanum vulgus. Berlioz var viðkvæmur og gat tárazt af minnsta tilefni.

En hann gat einnig verið harður í horn að taka einsog sjá má á ævisögu hans, Líf ástar og tónlistar, sem hann er næstum því eins frægur fyrir og tónverk sín, enda má skipa þessu merka riti við hliðina á helztu ævisögum heimsbókmenntanna einsog Játningum Ágústínusar og Rousseaus. Fáar skáldsögur jafnast á við slík rit að bókmenntalegu gildi, en auk þess fellir Berlioz gömul bréf inní frásögn sína og gefur henni þannig aukinn slagkraft. Hún verður sérstæðari fyrir bragðið vegna þess að bréfin segja mikla sögu um merkan mann og samtíð hans. Þau eru auk þess listilega skrifuð einsog annað sem tónskáldið festi á blað.

Lífið tekur skáldskapnum ávallt fram og þau rit sem eiga ekki forsendur í reynslu merkra höfunda eru sjaldnast mikill skáldskapur, hvað þá miklar bókmenntir.

Afstaða Berlioz til meðalmennskunnar í París um hans daga minnir á ballettmeistarann Dombasle sem einnig starfaði þar í borg en varð fyrir þeirri ógæfu undir lok listferils síns að missa trúna á ballettlistina(!) Karen Blixen segir frá því í ófullgerðri sögu sinni, Anna.

Berlioz notar engin vettlingatök þegar hann lýsir villimönnunum í París og vandar þeim ekki kveðjur. En eftirminnilegust er lýsing hans á því þegar Henriette, fyrri kona hans, er grafin upp úr kirkjugarði á Mont Martre og lögð til hvíldar í nýjum grafreit vegna þess að hinn fyrri var tekinn undir annað.

 áfram >>

 

 

fimmtudagur
apr.032008

Dagbók árið 1993

26. janúar

Minningargrein mín um hundrað ára afmæli Valtýs Stefánssonar birtist í Morgunblaðinu,löng grein.

11. febrúar

Tveir af eigendum Árvakurs, þeir Hallgrímur Geirsson og Kristinn Björnsson komu að máli við okkur Styrmi, sögðu okkur frá ummælum Davíðs Oddssonar um Morgunblaðið; að við ritstjórar blaðsins værum orðnir vinalausir; skrifuðum okkur frá vinum okkar án þess vita af því.

Morgunblaðið væri á niðurleið eins og allar kannanir sýndu og hefði ekki traust á við ljósvakana.

Nýjar kannanir um Morgunblaðið sem sýndu annað væru hannaðar eftir pöntun!

Morgunblaðið væri kratablað, málgagn Alþýðuflokksins, og Jón Baldvin væri stjórnarformaður Árvakurs!

Davíð hefur áreiðanlega verið illa fyrirkallaður, trúi ekki öðru.

Hann er tveir menn eins og Einar Benediktsson.

Og ég get svo sem vel viðurkennt að sjálfur hef ég tilhneigingu til að vera tveir menn, jafnvel þrír og raunar merkilegt hvernig þeir rúmast í einum og sama manninum!

 

 áfram >>

 

fimmtudagur
apr.032008

Dagbók árið 1992

 Sumar – ódagssett

 

Á leið úr laxveiði.

    Í bíl
    Sunnudagssteikin
    liggur jórtrandi
    við vegarkantinn
    og tveir franskir
    ferðamenn
    með rauða bakpoka
    hjóla framhjá
    trippin við túnið
    klóra hvert öðru
    með beruðum tönnum
    og hrossagaukurinn
    hneggjar
    við toppgræn þúfubörð
    en spóarnir
    reka upp hrossahlátur
    í holtinu fyrir ofan veg
    og engu líkara
    en sumarið sé nú loksins komið.
    En þá fara þeir að lesa
    um grjóthríðina
    í Kjalnesinga sögu
    og við fylgjumst
    með útvarpssögunni
    langt aftur í aldir
    og hugur okkar nemur staðar
    við fótlausan mann
    í Hundadal
    en grjótkasið
    á veginum
    dregur athyglina frá útvarpinu.
    Og við ökum
    inní sturlungalausa
    grjóthríð.
 

22.-23. ágúst

Mig dreymir um að vera alltaf meðal fólks og helzt að fara úr einu boði í annað og vera sem oftast í kjól og hvítt og láta viðstadda dást að fálkaorðunni á brjósti mínu sem ég fékk fyrir allt að því listræna kunnáttu í nefndarstörfum og rétt sambönd þótt mín sambönd einsog sagt er fari ekki hátt einsog þær konur vita bezt sem festast í nælonneti augna minna, þessu drauganeti í sægrænu hyldýpi samkvæmissíldanna...

 

 áfram >>

 

fimmtudagur
apr.032008

Dagbók árið 1991

25. ágúst

Styrmir minn,

Fór yfir erlendu fréttirnar um helgina, ástríðan lifir enn góðu lífi!

Athyglisverðast fyrir okkur er yfirlýsing Jeltsíns um sjálfstæði Eystrasaltsríkja og áskorun hans á Gorbasjov að viðurkenna þau. Og Jeltsín hyggst viðurkenna þau eins og aðs.utanríkish. sagði við Mbl. svo þeir hljóta að skiptast á sendiherrum.

Þetta var allt sem við þurftum.

Jafnvel hetja eins og Þorgeir þurfti hvönn til að halda í. Og við ísl. hetjurnar þurfum einnig eitthvað að handlása okkur eftir, eitthvað meira en ástríðuna, þótt réttlætið sé okkar megin að venju.

Það er semsagt Jeltsín sem hefur gefið grænt ljós, hann er maðurinn sem við eigum nú að fylgja. Hann og Rússland hafa viðurkennt Eystrasaltsríkin – og það nægir okkur. Þú sérð hann á upphleyptu myndinni á styttu Jóns Sig. á Austurvelli.

Gorbastj. er aftur á móti maðurinn sem vísaði veginn, Jeltsín ryður hann.

Eitt sinn voru þeir báðir í sama flokki, það er hin ósýnilega hönd örlaganna sem nú bendir inn í framtíðina.

Þetta höfum við að vísu vitað, eða trúað, en þótt mín kynslóð sé hert í eldi er hún öguð við staðreyndir.

 

áfram >>

mánudagur
feb.112008

Á vígvelli siðmenningar lll.

Á sínum tíma reyndum við morgunblaðsmenn að sýna fram á að kvötakerfið væri harla gallað,enda stríddi það af augljósum ástæðum bæði gegn skynsemi og góðum lögum að hægt væri að veðsetja og selja það sem menn eiga ekki; reyndum að sýna fram á að kvótabraskið stríddi gegn jafnaðarreglu stjórnarskrárinnar og þá að sjálfsögðu mannréttindum.Við bentum á að sjómenn og fiskvinnslufólk ætti að fá eitthvað í sinn hlut,ef þjóðareigninni væri skipt milli þeirra sem lifa á sjósókn.

Ekki var hlustað á neitt af þessu,en þó var komið í veg fyrir að eignarréttur myndaðist á auðlindinni

áfram >>