föstudagur
sep.142012

Ný ljóð

Þegar
landið
rís

 

1 Æska
og elli

 

Lífið er leiðin til dauðans

                     Guðmundur Andri:
                            Valeyrarvalsinn

 

Að lífið sé leiðin til dauða

er leiðsögn sem hugann ber

langt framá leiðarenda

að leyndardómi sem er

markmið í sjálfu sér.

Ég fylgi skáldi sem fer þessa leið

um fyrirheit vona sinna

og geng með honum þann grjótsára veg

sem grær eins og tíminn

að væntingum vonbrigða minna

 

 

2 Hrunið

 

Vitund okkar vaxin inní

veröld sem er ekki til,

þar er móða, þokubakkar

þar sér ekki handaskil,

 

þar er allt sem augað girnist,

allt sem ég að lokum vil.

 

Vitund okkar vilji þess

sem vakir í brjósti sérhvers manns,

hún er varða lífs á leiðum

leiðsögn guðs á vegferð hans,

 

en okkar vitund villt að lokum

vaxin inní hrunadans

 

 

3 Eilífðar-
smáblóm

                  M. Jochumsson

 

Fékk þann harða dóm

að falla í jörðu

 

deyja

 

þetta blóm

 

við heyrðum skóhljóð

tímans

 

kom tíminn á horngulum

skóm.

 

 

4 Það dregur í loft

                         Jón á Fjalli

 

Enn var óuppgróið

allt á milli heimatúns

og mels.

 

Blikur á lofti

sagði bóndinn

og benti til Vörðu-

fells.

 

Þá var Ísland eins og óspillt

stúlka

og engin leið að túlka

framtíð þess,

 

ekkert píslarvætti, aðeins

passíusálmavess.

 

Þá var Ísland gárulaust og græddi

gömul sár og  þar sem ennþá

blæddi.

 

 

 

5 Þú skrínlagða heimska

                                             St.St.

 

Hví hafði gæfan yfirgefið okkur

athvarfslaus við nyrztu ballarhöf ?

 

Hingað mændi sérhver drullusokkur

með silfurblik sem kalk úr dauðans gröf.

 

Græðgin hafði gefizt djöfuls árum

og grafið um sig fjarri öllum vonum,

 

eins og mý af ólum maggadonum

úr auðvaldsköldum heimi tregasárum.

 

Og allt var gert með galdri að þeim hætti

sem gullið ræður för og hröðum slætti

hjartans.

 

 

6 Aftur í legið þitt..

                            Bjarni Thor

 

Þá var Ísland illa svikið

allt var þá í grænum sjó

aðeins lifað augnablikið

engin vestursólarglenna

engin íslandsklukka sló,

 

þá var hnipin þjóð  í vanda

 

þá var Sogið eins og Blanda

 

þegar feigðar fjandabrennu

af Flugumýrareldum sló.

 

 

7 Kyssið þið bárur...

                                    J.Hallgr.

 

Þegar landið hneig í haf

og hending réði kasti

og það sem einhvers virði var

virtist orðið að plasti,

þá kom huldan, hlíðin söng

með hvísl af lækjarniði,

 

en landið reis við reginfjöll

og rosa á fiskimiði.

 

Síðar hefur lægt, ég lít

þau ljósu fjöll sem birtast mér.

 

Nú leggur huldan ljósa nótt

við lyng og blóm í hjarta sér

 

 

8 Huldan

 

Mín fagra dís,

 

í róti nýrra daga, dvel þú ei

við dauðans fingralöngu hönd,

því nú er eins og eilíft vor

sé ilmur hafs við Skógarströnd.

þar rísa margar eyjar úr

þeim unaðsreit sem fuglum hentar vel,

 

við nutum þess að eiga athvarf þar

við arnarból og supum fisk úr skel.

 

 

9 Hún vakir...þó enn

                                     St.St.

 

Og nú er landið litríkt eins og forðum

og laugast enn við tungl og gulan streng

og vörðuð leiðin fagnar framtíð sinni

með fuglasöng við veginn sem ég geng,

þar blasir við sú vitund sem mig dreymir

og vitjar enn míns hjarta líkt og  þú

sért eilíft hvísl af andblæ þeirrar stundar

sem áður var og ég á enn og nú.

 

 

10 Eina
ögurstund

                Völ, 41

 

Gamall er ég og grár

sem veggur dauðans,

 

með auðnarsvip er allt

sem blasir við

 

og rauðanóttin rís

úr hafi tímans

 

og allt er hljótt

í þessum fuglaklið.

 

 

Þið þekkið
fold

               J.Hallgr.

 

Því blekkingin er bandamaður þinn

sem bregður hlátri yfir þögn og dauða...

                                    (Hrunadansinn, vlll)

 

1

Vér sem erum alin upp með Njálu

og eigum þetta land að skírnargjöf,

hvers væntum vér af þeim sem áður ólu

vort undarlega land við nyrztu höf  ?

 

Vér væntum þess að arfleifð þeirra dugi

í öskugráum byl vors hrunadans

og nýir tímar hefji vora hugi

til heiðurs arfleifð þessa kalda lands.

 

--------

 

2

En nú er allt í afturför sem snertir

þá arfleifð sem er stolt í þessum dans

og þótt vort þjóðskáld sólir saman hnýti

er smáblóm dauðans bundið við þann krans.

 

-----

 

3

Því hér er ekki sungið útúr sögnum

sigurljóð um land við nyrzta haf,

en holtaþokuvæl er viðbit þess

sem veröld guðs í tannfé fyrrum gaf.

 

Vér syngjum eins og fuglar kviðri að kveldi

og köllum það til vitnis um vort stolt,

en það er eins og napur næðingsvindur

norpi þar sem  minkur við þau holt.

 

-------

 

4

Því ættum vér að vernda gróður þess

sem vex af djúpri rót í þeirri mold

sem arfleifð vor í ösku tímans geymdi

og undi sér við þessa gömlu fold.


-------

 

5

Ég veit að tízkan telur sig ei þurfa

að tjalda því sem gerir oss að þjóð

og arfurinn er ekki líkt og fyrrum

sú endurnýtta  tímalausa glóð,

hún kveikti löngum elda eins og færi

um æðar landsins vorgrænt kvikuhlaup

en nú er eins og íslendingaþættir

séu ekkert nema gamalmenna raup.

 

En tíminn líður, tengist aðeins því

sem tvíræð reynsla kallar fram á sviðið,

það sem var en verður ekki á ný

sem vorköld ást á  því sem nú er liðið,

samt býr við hjartað blik af gömlum eldi,

það brakar enn í þeirri öskuglóð

og enn er Þorgeir þögull undir feldi

og þrætubókarfjöld á heljarslóð.

 

-------

 

6

Hlustum enn á gamlan gróður þinn

mitt grýtta land og fögnum við þann söng

því líf vort allt er von og vænting meir

en Vaðlaheiðarmillisveitagöng.

 

Nú sezt þar fugl á staur og starir út,

við störum báðir út í vatnsins nið

og vatnið rennur hægt til himins upp

og hverfur loks í  sjávarfuglaklið.

 

-----

 

7

Ég nýt þess enn að hafa hvílzt í þér

mitt hljóða land sem jökulvötnin ber

af örlöglausum öræfum til mín

með undrakrafti líkt og gamla Rín.

 

Og þessi kraftur þýtur um vort blóð

með þungum nið er blæs í hjarta mitt

þeim undrakrafti jökulhvítrar móðu

sem ógnar því er deyr við brjóstið þitt.

 

-----

 

8

Á Bliklastöðum berst á milli greina

ein beingul ugla sem hefst þar löngum við

en hún er líkt og aðrar grimmar uglur

með endurlýstan mánagulan kvið.

 

Við dimmumót er kvöldgult kulið eins

og  kankvís fari sól að vænjum fugla,

þeir mættu vita  að dauðans krappa kló

er kattargul og tvisýn skógarugla.

 

En nú vex tungl af hamrahlíðarvegg

og hnígur burt að annarlegri strönd,

sem fuglar kveðji kulsárt aftanskin

og klógult nemi tunglið önnur lönd.

 

Það væri bezt að viðra á öðrum slóðum

vængi sína og lifa kvöldið af,

 

minn hugur leitar langt á sundin út

og leggst til skjóls  við tunglgult Atlantshaf.

 

----

 

9

( Hrafnar tveir flugu

með þeim alla leið )

                    (Njála lxxix )

 

Undir hömrum hrafnar tveir,

hrafnasparkið eins og væri

feigðartákn, svo flygju þeir

og fyndu næsta tækifæri

til að vekja voðagrun

um veröld fyrir næsta hrun.

 

------

 

10

Að vísu hefur tíminn tekið stökk

og talsverð breyting hefur átt sér stað

og nú er jafnvel mesta hetja heims

horfin burt sem visnað skógarblað.

 

En dauði Armstrongs eru tímamót

sem öðlast dýpt í sögu þessa lands,

þeir æfðu í Öskju, hann og vinir hans

því hálendið er  að mestu auðn og grjót.

og eftirmynd af tunglsins tæpa gróðri

þótt tregafulla  skíman villi sýn

og nú er engin næturrómantík

með norðurljósum þar sem tunglið skín

 

En fótspor manns á mánans yfirborði

er mikill sigur fyrir anda vorn

og jafnvel meiri en Magellans langa sigling

um meginlönd og suður fyrir Horn.

 

--------

 

11

En þarna situr þröstur einn og fagnar

að þjóðin skuli lifa hrunið af

og landið rís þótt útrás hafi ætlað

að ógna því og færa það í kaf.

 

Því spilling þjóðar þekkir engin takmörk

og þjóð er óþjóð ef hún festir rót

og hræsni eins er öðrum lítils virði

og allra sízt nein gleði í þokkabót.

 

Og því skal eigi una við þá lygð

sem öllum lygum fremur drepur þá

goðsögn að vér göngum lengstum til

góðs þar sem vegur skáldsins mikla lá.

 

------

12

Ég heilsa ykkur heimarómi blíðum

um hálfbyggð nakin marggleymd sveitaþorp,

ég fór þar um með frægu skáldi áður

og fannst ég vera skáldið Adam Thorp.

 

Hann kom sem Auden endur fyrir löngu

að eignast svalan jökul fyrir vin,

en sá að landið átti eðli tígurs

og einnig vígtenjnt jökulfjallagin.

 

Og nú er Ísland eins og gamall draumur

sem engan dreymir nema þetta skáld,

það brakar enn við Egils vígaferli

og enn er kvæði rist á þennan skjöld.

 

------

 

13

Vér lifum í heimi sem hverfur oss

hægt og sígandi unz Amason

glatar sínum dýrmæta draumi

og deyr eins og hver önnur fölskvalaus von.

 

Atburðir samtíðar þrengja að því

sem þekkast er á vorri jörð

og nú er svo komið að eilífðin er

aðeins dauði og þakkargjörð.

 

 

14

 ( af dauðanum )


Dauðinn er vegurinn

til eilífðarinnar

            Quo vadis


82ja ára gamall

arka ég um þessa gömlu fold

þar sem njólinn nýtur þess að hausti

að nærast við þá ríku gróðurmold,

 

ein á ferð og áin rennur hægt

uppímóti líkt og raunar við,

ein og væntum einskis framar, það

er andartak við dauðans þunga nið.

 

Því dauðinn kemur, drepur fingri á

þær dyr, og jörðin hverfur undir lín

svart sem myrkur, mildar þessa nótt

og mjúkum höndum dregur oss til sín


------


15

Ég heilsa einkum heimarómi blíðum

þeim sem heimtu landið undan danskri stjórn

og kyntu undir óskir þeirra er vildu

endurnýja feyskinn huga vorn.

 

Hann var sem minning, ævagamlar glæður

sem gras er vex við kalinn túnasvörð

og allt varð nýtt og endurnýtt við sagnir

af úthafi sem reis við græna jörð.

 

Nú sér hún rísa sól við hvítan jökul

og sólarröndin málar þetta haf

líkt og Kjarval kæmi hingað aftur

með kraft þess lands sem hverfur norðuraf.

 

-----

 

16

Og þegar sólin spennir jörð sem áður

og allt er kyrrt við næturhimin þinn,

þá andar jörðin úthafsbláum friði

og Ísland faðmar vökudrauminn sinn.

 

En sólin hallar höfði sínu að

þeim hinzta degi sem er framtíð vor,

hann er jafnóvænt æfintýri og þá

er Armstrong kvaddi tungl við fyrstu spor.

 

-----

17

( af guði )

 

Vér leitum þess er býr í brjósti voru

og bregður ljósi á kviku þess sem fer

um huga vorn og hnattblys sólarkerfa

en himinn guðs mun leyna enn á sér,

því oss er löngum ætluð önnur veröld

og andi hans  er fjarri mannsins sýn,

samt birtast verk hans enn um sköpun alla

og arfleifð guðs er hugarveröld  þín.

 

Þú finnur innst í hjartans helgidómi

þá hönd sem leiðir ótta vorn í skjól,

sem hirðir geymir hann með nálægð sinni

þá hjörð sem lifir af sín kvíaból.

 

Og þangað leitar hugur vor að hausti

er haustar að í vitund gamals manns,

því ekkert skjól er betra þjóð sem þegni

en þinglýst náð í föðurarmi hans.

En sjálfur er hann innst í kviku þinni

og ætlast til þú finnir mynd hans þar

því guð er ekki húsbóndi á himnum

og heilsar engum þar sem Armstrong var.

 

En tunglið er samt ljós er lýsir veginn

og leiftrar þar sem tákn um guðlegt bál,

en engan veginn yfirlýsing drottins

um eilíft líf og dauðans himneskt skjól.

 

-----

 

Vér finnum engan guð í geimferð þeirri

sem gerð er út af tölvubúnum huga,

verðum því að horfa inní hjartað

og helzt að láta óvissuna duga.

 

------


18

(Purgatorio, xxx)

                

Minn hugur fylgir hverju spori þínu

og hvílist þar sem dögg við grasið skein

og skuggi þinn er þögn í brjósti mínu

og þögult andvarp hausts við nakta grein.

 

Ég elska þig og bið þess Beatrísa

að blessun þín sé ljós á veg minn stráð

og þegar önnur ljós þau hætta að lýsa

þá lýsir þú sem ég hef ávallt þráð.

 

Ég hitti þig við helveg þar í neðra

og hjarta þitt var einnig fyrir mig

en ég varð úti í veðri allra veðra

þótt veröld mín sé einnig fyrir þig

 

----

 

Vor jörð er öllum öðrum hnöttum betri

og eilíft sumar grænkar líkt og nú

en sjálf ert þú sem vor að loknum vetri

og veröld mín er himnesk eins og þú.

 

----

19

Nú rís elding þess tíma

sem fáliðann virðir           

                  Einar Ben, Væringjar


Það er rétt sem Einar orti forðum

að elding tímans rís við fjallabrún

og þó að margt sé öndvert eins og háttar

er ekkert betra veganesti en hún.

 

Ég horfi fram og huga mest að því

að Herðubreið sé enn á sínum stað

og Hólsfjöll séu áfram íslenzk jörð

og efalaust að tízkan leyfi það.

 

Því ungur fór ég yndælt júníkvöld

og átti vin á Grímsstöðum á Fjöllum,

þá ríkti kyrrð á öræfunum öllum

og æviminning þessi töðugjöld,

 

svo hvíli ég minn huga norður þar

en hjartað slær í takt við þetta kvöld.

 

------

 

20

Ég horfði fram á Eilífs öskubláma

sem á þar skjól í vestanfjallanmóðu

og þangað einnig þar sem Kverkfjöll stóðu

í þokkafullum miðhálendisgráma,

 

en Jökla rann við silfurgráan sand

og sótti kraft í þetta gleymda land.

 

                                             Matthías Johannessen


miðvikudagur
ágú.172011

Á vegum seiðmanna

Hvem magter mig? Jeg dör först naar jeg vil
                                                          Thorkild Björnvig


Að sögn Snorra var Eiríkur kelda
bundinn við Skrattasker vegna fjölkynngi
seiðmanna sinna.

Og það flæddi að.

Um skeið hefur þetta verið hlutskipti
okkar og það flæðir að.

Enginn hefur bundið okkur
við þetta sker, nema sjálfskaparvíti
okkar sjálfra,
                          við erum
á flæðiskeri stödd, vorum 
í helgreipum seiðmanna
og fjölkynngi þeirra.

Eigum allt undir náttúrulögmálum.

Enn er þó sól með gíl
en úlfur ekki langt undan
og það tekur í fjötrana
þegar flóðið glefsar í þetta
framandi sker sem mátti
muna sinn fífil fegurri.

Lítum um öxl, horfum til þeirra
sem vissu að oft fellur sjór
yfir hlunna og lifðu af
í ljóðum eins og Geðfró, ort
úr arfleifðinni.

Þar munum við lifa af,
einungis þar.

Og í hreinsandi afli
náttúrunnar

mánudagur
júl.252011

Noregi blæðir

Horfum til Úteyjar eystri
þar sem paradís breyttist
í glóandi víti
eins og hendi sé veifað,

þar sem ofbeldið læsti
blóðugum klóm
í stálhjarta byssumanns

og ungt fólk
hitti örlög sín fyrir
við afskræmda ásjónu
dauðans,

horfum okkur nær
til annarrar Úteyjar
-
æskuumhverfis
Sighvats hirðskálds
hins helga Ólafs

þar sem farfuglar syngja
við lyng og blóm,

þangað sem landnámsmenn
festu hug sinn
og hjarta
við heimaslóð nýja,

hefjum íslenzka fánann
í hálfa stöng
og sendum hryggð okkar
austur um höf.

föstudagur
júl.222011

Eldar og arfleifð

Sögur Jóns Trausta af Skaftáreldum eru einhver eftirminnilegasti skáldskapur á íslenzku, þótt þær séu vitanlega sögulegur skáldskapur eins og til er ætlazt. Það er rétt sem segir í  ritdómi J.Þ. (Jóns Þorkelssonar?) í Sunnanfara (nóv. 1912) að höfundur gengur brjóstsviðalaust út í sjálfan Skaftáreldinn, með rit sr. Jóns Steingrímssonar sjálfs að undirstöðu.

Fyrri hlutinn um Holt og Skál er þó áhrifameiri og einhver magnaðasta skáldsaga sem ég hef lesið á hvaða máli sem er, ekki sízt náttúrulýsingarnar sem eiga sér enga hliðstæðu í heimsbókmenntunum, en lýsingarnar á kjörum fólks, sálarlífi þess, gleði og sorgum eru þó ekki síðri skáldskapur og eftirminnilegur.

Allt er þetta að mínum dómi einsdæmi í íslenzkum bókmenntum og lýsir því betur en flest annað hver við erum í raun og veru og í hvaða landi við höfum búið.

Síðari sagan fjallar um ævi sr. Jóns og afrek og ætti að vera hverjum manni lærdómur og uppörvun, svo eftirminnilegt sem þetta svið er. Þó verða lesendur að gera sér ljóst að höfundur er ekki að skrifa sögulega úttekt, heldur skáldskap, en í ritdómi sínum virðist J.Þ. gleyma því meginatriði, en leggur áherzlu á það sem hann hyggur sögulega rangt í frásögninni. Hann gerir sér þannig ekki fulla grein fyrir kjarna málsins og leggur út af aukaatriðum eins og ritdómurum hættir einatt til. Þó eru þarna merkar upplýsingar um persónur sögunnar sem flestar lifðu á þessum skelfilegu tímum, þó að ástarsagan innan sögunnar sé skáldskapur frá rótum; fallegur skáldskapur og eftirminnilegur.

Ég heyrði Bjarna Benediktsson eitt sinn í afmælisfagnaði Gunnars Gunnarssonar lýsa því, hvernig sögulegar skáldsögur geta dregið upp raunréttari mynd af umhverfinu en bláköld sagnfræðin ein og eigum við nokkur dæmi þess eins og kunnugt er, en þarna var dr. Bjarni að lýsa þeim áhrifum sem sagnaskáldskapur Gunnars Gunnarssonar hafði haft á hann sjálfan, en þó einkum saga hans um Jón Arason.

Sögur Jóns Trausta um Skaftárelda og samtíð þeirra eru meistaraverk á þessu sviði bókmennta. Slík rit ættu að vera skyldulesning í skólum og þá einnig á heimilum sem nú eru undirlögð af erlendri popptízku. Sögurnar segja okkur hver við erum í raun og veru og þá ekki síður hver sú arfleifð er sem hefur haldið í okkur lífinu.

Það er í slíkum skáldskap sem fólk lifir í andörlögum sínum. Þar rís það upp í listinni, gegn vanmætti og umkomuleysi eins og við lifðum af í blekkingum Íslendinga sagna þar sem við fundum stolti okkar og metnaði viðnám, sem sköpum skipti í allri niðurlægingunni, eða eins og þegar Egill vann bug á sorg sinni og vanmætti með því að yrkja ódauðlegt kvæði um látna syni sína.

Það er í þessari arfleifð, þessari einstæðu list sem þjóðin hefur lifað af.

 

(Sögur frá Skaftáreldi eftir Jón Trausta má m.a. nálgast á hljóðbókasíðunni Hlusta.is.)

mánudagur
júl.182011

Milli elda

    “...byggð þeirra var milli tveggja elda “

Jón Trausti, Skaftáreldar.

 

1.

Stundum er engu líkara en við þekkjum ekki landið

sem við búum í. Markaðssetningin gerir aðrar kröfur

en ógnleg reynsla.

 

Við erum önnum kafin að selja landið ferðamönnum

sem þyrstir í ný og óvænt ævintýri, selja

hvalkjöt í veitingahúsum við Laugaveg

og náttúruskoðurum ferðir á hvalaslóðir.

 

Enginn selur fyrirvara

og því getum við ekki selt Ísland eins og það er.

 

Ef flugmenn gera verkfall á miðri vertíð

ætlar allt um koll að keyra

og ef gömul fljót eins og Múlakvísl

taka hringveginn með sér og brýrnar spænast

í jökulleirinn, hlaupa sölumenn stytztu leiðina

upp á nef sér og hrópa, Nýja brú á morgun.

 

En hvað ef Katla kæmi ?

 

2.

Við seljum landið eins og væmna dægurflugu

en þó er engu líkara

en við þekkjum það ekki, seljum

köttinn í sekknum ef því er að skipta,

en Ísland er ekki gæludýr, enginn heimilisköttur,

 

það er tígur.

 

Við búum með kattdýri og það rymur

þegar fjöllin gjósa og nágrennið titrar

af ösku og árnar ryðjast fram

með ískletta í köldum faðmi og brjóta

vegi og brýr eins og allt sé það spýtnarusl.

 

Þessir fyrirvarar minna okkur á

að við þekkjum ekki lengur þetta land

sem við erum sífellt að selja eins og tízkuvöru,

 

þennan orustuhól

undir blæðandi tungli.

 

3.

Sá sem vill kynnast Íslandi eins og það birtist

í móðu langrar sögu ætti að lesa

skáldverk Jóns Trausta um Skaftárelda

og standa í sporum Vigfúsar þar sem hann

sér tuttugu og tvo eldgíga gjósa í einu

eins og blóðugan rándýrskjaft

undan Laka,

 

jafnvel tunglinu blæðir og hraunið hakkar

sveitina í sig eins og tígur

eða í sporum séra Jóns

Steingrímssonar, þegar hann í upphafi

eldmessunnar segir, Lokið kirkjunni.

 

Lokið kirkjunni,

 

og flóðið æðir eins og skelfileg hugsun

úr hamslausri kviku ið neðra,

hrauntungan sleikir útum

en storknar svo loks við kirkjudyrnar

eins og kertavax.

 

4.

En Ísland er líka guðlegt kraftaverk

eins og eldpresturinn boðaði

og það er heillandi áskorun

að búa við kraftaverk

hvað sem nútímakröfum líður.

 

En sölumenn hafa ekki enn markaðssett

kraftaverkin

því þau eru ekki föl fyrir annað

en ógnlega reynslu, eldmóð

 

og óbilandi blekkingu.

miðvikudagur
júl.062011

Að ragnarökum

Þegar talað er um gróðurhúsaáhrif

er aldrei reiknað með þeim eldiviði

sem þarf til að kynda upp í helvíti

 

sumir hugsjónamenn telja að allir

skógar jarðarinnar nægðu ekki

til að halda þessum eldum við

eftir siðferðisbrest mannkyns

á síðustu öld,

                                   þannig hefur

mennskunni hrakað og útrýmingaræði

hugsjónamanna færzt í aukana, komið

harðar niður en glæpir svörtustu miðalda,

 

samt hafa rómantísk skáld og listamenn

stjórnað þessari helför,

yfirgefið hjarta sitt

eins og hrunið skjól í köldum veðrum

tímans,

            sigað manndýrinu á umhverfi sitt,

þessir svokölluðu leiðtogar fólksins

sem voru ungir að fikta við skáldskap, liljur

Georgíu og langþreytta fíla í litbrigðum

kínverskra fjalla

en breyttu hendingum

ljóða sinna í skíðlogandi martröð síns herleidda

helvítis,

senn skortir eldivið til upphitunar

þessara frosnu túndra gúlagsins

 

                                               en þegar laufið

fellur í fölum skógum Amason og eldarnir

slokkna á gamalkunnum slóðum Dantes

og skáldskapurinn um manninn rotnar

með annarri ösku

           þá grænkar Eden aftur

og Askurinn syngur að nýju um iðjagræna

jörð.

miðvikudagur
júl.062011

Að fjallabaki 

Af hverju þurfum við að leita

að bezta heimi allra heima

fyrst Eldóradó er ekki til, af hverju

þurfum við að búa í landi þar sem grjót

er gull og gimsteinar fleiri

en stjörnur himins?

Við vitum hvort eð er ekki

hvað er handan fjallsins, ekki frekar

en íbúar fyrirheitnalandsins

sem er ekki til.

Fljótið rennur að vísu

undir fjall tímans, en hvert

sem straumkastið ber

þessa brothættu skektu sem við

deilum með ljónum gaupum

og tígrum eru áhöld um

hvort stýrið dugi í freyðandi

iðunni.

En hvort sem það dugar

eða ekki fljótum við

með straumnum og einhvers staðar

brotnar bátsskelin við kletta

og standberg.

Við spyrjum,

spyrjum

hvað er handan fjallsins

þegar okkur ber að landi

sem er ekki til,

því fjallið rís eins víst

og ókleif nálægð dauðans.

 

miðvikudagur
jún.152011

Ísland

Rússneska skáldið Mikhail Lermontov sagði

að skáldskapurinn væri eins og rýtingur

sem nýtist ekki lengur,boðaði fall

 keisarastjórnarinnar og einvaldann

sem færi landið ótta og vonleysi,vopnaður stálhnífi.

 

Þannig voru skáldin áður fyr vopnaðir spámenn,einnig á Íslandi.

 

Ég dáist að þessum fyrirmyndum okkar

sem höfum gleymt því að minna á hvað það land á skilið

sem flytur inn læpuskaps ódyggðir eins og Bjarni

Thorarensen varaði við í sígildu kvæði sínu, Ísland,

 

og þessi íslenzki Lermontov segir að slíkt land

ætti að hníga í sjá og hverfa þangað sem það er komið.

 

Það er ekki úr vegi að hvetja rýtinginn enn og aftur

og minna á þá vellyst og vesöld sem hruninu ollu,

 

en þó er Ísland enn nafnkunna landið sem lífið oss veitti,

því það átti engan þátt í þeim  mannskemmdum

kreppu og ódugnaðs sem við blasir.

 

Það vorum við sjálf sem hleyptum völskunum

í opið sár þess kveifarskapar sem  kallaði

á siðferðisbrest græðginnar.

 

Og enn standa kerúbar vörð með sveipanda sverði

þar sem bláfjötur ægis hnígur að klettóttri strönd. 

föstudagur
des.032010

Þakkaræða mín

            Ég þakka mikinn heiður og mikla viðurkenningu sem ég met mikils. Ekkert kompaní er betra en tengsl við Háskóla Íslands. Þau reyndust mér vel ungum og æ síðan. Eftir próf sagði dr. Alexander Jóhannesson að ég skildi skrifa doktorsritgerð og koma að Háskólanum. Nú hefur loks verið bætt úr því !

            Ég hef að vísu kennt á vegum Háskólans og haft af því mikla ánægju.En kóssinn var annar en dr.Alexander ætlaði.

Ég hef verið að lesa kvæðaflokk Montales um látna konu hans. Mér skilst hann hafi ort þessi ljóð í einsemd á hótelherbergi á norður Ítalíu. Hann notar rím með eftirminnilegri nærgætni. Arfleifðin er á næstu grösum, þótt nýr tími sé andrúmið.

            Einmana finnur skáldið kröftum sínum viðnám þegar árin færast yfir. Sú reynsla getur í senn verið sár og nærandi.

 

            Og nú er komið haust.

                                   Eins og birkið sem bíður þess löngum

                                   að blíður andvari strjúki það undir kvöld,

                                   fari viðkvæmar greinar mjúkum höndum

 

                                   þannig bíð ég þess einnig við ótrygga sýn

                                   að augu þín snerti haustkaldan vanga

                                   eins og hvíslandi golur hljóðlega syngi

                                   við hrynjandi lauf þetta októberkvöld

 

                                   eins og dularfull ástríða dragi til sín

                                   mitt dáðlausa þrek

 

                                   en þrátt fyrir haustið í húmsvölum vindum

                                   og hríslurnar sakni laufsins á kulnuðum greinum

                                   og skógurinn minni á skilnaðarstund

                                   þegar skjálfandi rödd þín kveður að lokum

                                   vatnið sem gárast við grábláa steina

                                   og glitrandi tillit, það fylgir mér samt

                                   á þinn fund

 

                                   eins og skógurinn vakni og vaxi að nýju

                                   inní vorgræna golu sem kyssir hvern fugl

                                   og hvert tré

 

                                   þótt vindarnir gnauði við vatnið og niðurinn sé

                                   nóttin sem vex þér í augum.

 

Þannig kemur þetta haust, þetta óumflýjanlega haust; eins og kvæði innan kvæðisins,það sem ekki er beinlínis talað um,heldur ýjað að með vísunum og skírskotunum

Eins og þetta kvæði sem fjallar um skóginn á hausti og upprisu hans á vori, fugla og tré og hefur hliðsjón af umhverfi sínu.

Vindarnir deyja við vatnið, þeir eru veðrabrigði í lífi okkar. Þegar á móti blæs undir lokin vökna gömul augu eins og fjalla vötn, en niðurinn er nóttin sem hefur ávallt vaxið okkur í augum, þótt við höfum reynt að láta lítið á því bera.

Glitrandi andartak á góðum stundum fylgir okkur, þrátt fyrir haustið, þrátt fyrir skilnaðarstundir; þrátt fyrir skjálfandi raddir sem minna á kliðinn í skóginum, þegar laufið fellur og fuglarnir hætta að syngja.

Þessi stund hér í Háskóla Íslands í dag er slíkt andartak. Og fyrir það þakka ég af alhug og auðmýkt. 

sunnudagur
nóv.282010

Pressan.is: Þrír íslenskir rithöfundar hljóta heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands

Á fullveldisdaginn, miðvikudaginn 1. desember nk., verður einstakur viðburður í Háskóla Íslands. Þá bjóða Íslensku- og menningardeild og Hugvísindasvið til  bókmenntafagnaðar, þar sem þrír íslenskir rithöfundar - Álfrún Gunnlaugsdóttir,  Matthías Johannessen ogThor Vilhjálmsson – verða sæmdir heiðursdoktorsnafnbót viðHáskóla Íslands.
      
Háskóli Íslands veitir þessum höfundum sinn hæsta heiður fyrir sköpunarstarf þeirra, og  um leið sendir skólinn með þessum gjörningi skilaboð um mikilvægi orðsins listar og  annarrar frjórrar menningarstarfsemi í íslensku samfélagi, enda gæti hann ekki staðið undir nafni sem þjóðskóli án þess að leggja rækt við íslenska menningu. 
      
Auk sviðsforseta og deildarforseta, taka kennarar og nemendur Íslensku-  og menningardeildar þátt í dagskrá athafnarinnar, sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla  Íslands (Aðalbyggingu), kl. 13:30 til 15.

http://www.pressan.is/Menningarpressan/Lesa_Bokmenntir/thrir-islenskir-rithofundar-hljota-heidursdoktorsnafnbot-vid-haskola-islands

þriðjudagur
sep.072010

Á berangri

Hann stóð upp og vitnaði 
í Vorhvöt Steingríms, sagðist 
mundu verja landið,ef að því 
væri sótt,
það ætti
að vera óháð öllu nema bláfjötri 
ægis við klettótta strönd 

eins og skáldið hefði sagt.

Við
fórum saman til Brussel og engu 
líkara en hann hefði Krýsuvíkurberg
í farteskinu,
það sem hann sagði á þunglamalegum fundum 
í þessu þunglyndislega 
umhverfi skáldpiltsins Rimbauds 
sem gætti ekki að sér í þangrauðu 
eldhafí Vítis
og höfuðborg friðsamlegrar 
sambúðar eins og það var orðað 
í kalda stríðinu, minnti helzt 
á brimsogið við fuglabjörg 
sextugs dýpis sem vakir milli 
okkar og svartfugla,fýla 
og súlunnar
og þess bláfjöturs 
sem brotnar við hvítfyssandi 

kletta okkar einmana lands.

Það var rigning í Brussel 
og berangur skáldanna 
minning.
þriðjudagur
ágú.242010

Öllum aðgengilegur

Fréttablaðið hefur í slúðurdálki sem nefnist Frá degi til dags birt heimatilbúna frásögn um samtal við Ólaf Skúlason með tilvísun í dagbækur mínar og þessu fylgja jafnframt þau ósannindi að ég hafi tekið dagbækurnar af netinu og þá væntanlega í yfirhylmingarskyni. En dagbækurnar hafa verið og eru á netinu og auðvelt að nálgast þær, enda hef ég engu að leyna.

En þannig reynir Baugspressan að koma höggi á mig af alkunnum ástæðum. Ég hef að vísu lítinn áhuga á þessu tilhlaupi með myndum af okkur Ólafi, en vil benda þeim sem áhuga hafa á að lesa rétta frásögn af samtalinu við hann fyrir 12 árum, en það birtist sunnudaginn 18.janúar 1998 og er ekki annað en kæruleysisleg lýsing á einhvers konar samdrykkju !

Þeir sem vilja geta svo borið saman og séð hvernig hægt er að kokka fyrir fjölmiðla.

Með góðri kveðju til lesenda minna,
Matthías Johannessen

 

fimmtudagur
apr.082010

Pressuspjallið með Árna Þórarinssyni við Matthías

1. Pressuspjallið:

Við græddum 70 milljarða króna á ákvörðun forsetans í Icesave?

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að íslenska þjóðin  hafi grætt 70 milljarða króna á þeirri ákvörðun forseta Íslands að vísa Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríki hins vegar forystukreppa.

 

2. Pressuspjallið:

Er bara gamall blaðamaður úr kalda stríðinu en upphlaupin voru út af engu

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að upphlaupið sem varð þegar hann hóf að birta dagbókarfærslur sínar hafi verið upphlaup út af engu. Hann sé bara gamall blaðamaður úr kalda stríðinu og talsvert fyrir upphlaup. 

 

3. Pressuspjallið:

Ófyrirleitnir hæstaréttarlögmenn, loddarar og útsendarar útrásarvíkinga stýrðu

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að ófyrirleitnir hæstaréttarlögmenn, loddarar og útsendarar útrásarvíkinga hafi kúgað almenningsálitið hér á landi. 

 

4. Pressuspjallið:

Grimmir kapítalistar og braskarar gerðu fjármálalega stjórnarbyltingu

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að grimmir kapítalistar og braskarar af útlendri tegund hafi tekið íslenskt samfélag herskildi, gert fjármálalega stjórnarbyltingu og flutt milljarða úr sjóðum landsmanna til útlanda.

 

 

 

þriðjudagur
nóv.242009

Enn af Ólafi

Í afmælisrit Davíðs Oddssonar, 17. janúar ‘98

Þegar Ólafs saga Thors kom út sagði Björn Þorsteinsson prófessor við mig, Ég og mínir menn erum ánægðir með bókina(!) Þetta kom mér skemmtilega á óvart því að Björn og “mínir menn” voru vinstri menn; marxistar. Ég hafði átt á öllu von úr þeirri átt.

Það eina sem Björn Þorsteinsson sagðist hafa út á Ólafs sögu að setja var skortur á gamansögum og munnmælum um Ólaf. Það hefði mátt vera meira af því, sagði hann. Ég sagðist ekki hafa viljað hafa annað í bókinni en það sem ég hefði fengið staðfest. Sumar gamansögurnar um Ólaf væru tilbúningur, eða þjóðsögur, en ég  viðurkenndi að þær hefðu þá einnig gildi sem slíkar. En síðan hef ég safnað saman sögum um Ólaf og mætti setja þær einhvern tíma inní nýja, styttri útgáfu af verkinu sem sérstakan kafla; eða viðauka. Þá mætti ganga að þeim á vísum stað.

Hér á eftir fer það sem ég hef rekizt á af þessu tagi; eða safnað sjálfur.

Í samtali sem birtst í DV laugardaginn 9. maí 1987 segir Pétur alþingismaður Sigurðsson frá Ólafi með þessum hætti:

“Það vildi nú þannig til að fyrsti maðurinn sem ég hitti í þinghúsinu var Ólafur Thors. Það fyrsta sem hann sagði við mig var: “Ja, hvur djöfullinn, eruð þér nú komnir inn í íhaldsflokkinn líka, gamlir hásetar frá Kveldúlfi?”

Þetta var náttúrulega rétt hjá honum því ég var megnið af minni togaratíð hjá Kveldúlfi. En þetta sagði hann hlæjandi og bauð mig velkominn, enda var alltaf gott á milli okkar.”

Guðmundur Hermannsson átti á sínum tíma samtal við Friðrik Ólafsson skákmeistara og birtist það í Morgunblaðinu. Þar er talað um áskorendamótið 1959 og Friðrik segir: “Skáksambandið átti enga peninga til að standa straum af þátttöku minni í mótinu, og hvað þá að kosta aðstoðarmann,” sagði Friðrik. En þá tók einhver sig til og hringdi í Ólaf Thors og sagði að það væri engin hemja að íslenskur skákmaður  væri kominn í námunda við heimsmeistaratitilinn en engir peningar væru til að senda hann utan til keppni. Ólafur var sjálfur skákáhugamaður, var m.a. eitt sinn formaður  Taflfélags Reykjavíkur. Honum brá svolítið við þessar fréttir og hringdi í mig og spurði hvernig best væri að haga þessu. Ég sagðist vera orðinn þreyttur á snöpum hjá almenningi og því kæmi mér mun betur að fá fjárveitingu eða styrk frá ríkinu. Ólafur sló þessu upp í grín og mér er alltaf minnisstætt hvað hann sagði: Ef það er hægt að senda mann og kosta undir hann alla leið til Ástralíu til þess eins að hoppa þar eins og kengúra, þá hlýtur að vera hægt að bjarga þessu máli. Þarna var Ólafur vitanlega með sínum græskulausa hætti að vitna til Vilhjálms Einarssonar, sem vann sitt mesta afrek á

Ólympíuleikunum í Melbourne.”

Í sagnabanka Leifs Sveinssonar í Lesbók Morgunblaðsins segir svo: “Björn Pálsson á Löngumýri var kjörinn á þing 1959. Hann var ekkert að bíða eftir því að kynnast þingstörfum, heldur hélt jómfrúarræðu sína nokkrum dögum eftir þingsetningu. Þótti Birni ræða sín harla góð og gekk rakleiðis til Ólafs Thors og segir við hann: “Jæja, hverng fannst þér ræðan?” Ólafur svarar: “Björn minn, þú hefðir átt að vera kominn á þing fyrir löngu, því þá hefði ég ekki alltaf verið talinn vitlausasti maður á þingi.”

Við andlát Ólafs Thors varð Birni á Löngumýri á orði: “Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.”

Axel Sigurðsson skrifar undir dulnefninu Kormákr í Velvakanda laugardaginn 28. nóvember 1981 og segir: “Þegar ég las mér til ánægju stutta grein í Mbl. um skákáhuga Ólafs Thors, rifjuðust upp fyrir mér tvö atvik sem sýna glöggt áhuga hans og lifandi tengsl við íþróttirnar og þá menn, sem að þeim málum unnu.

Árið 1959 fór landslið okkar í handknattleik í keppnisför og hafði af litlum efnum verið unnið kappsamlega, eins og títt var á þeim bæ. Birgir Björnsson var þá fyrirliðið landsliðsins og mikil driffjörður, en skömmu fyrir ferðina varð hann fyrir því óhappi að fingurbrotna á æfingu og var því valinn annar maður í liðið í hans stað.

Þótti mönnum að vonum súrt í broti að Birgir gæti ekki farið þessa för, því hann hafði svo sannarlega unnið til þess. Þess vegna tókum við okkur saman nokkrir áhugamenn og settum upp samskotabauk í Bókabúð Lárusar Blöndal í Vesturveri, en þar vann ég á þessum árum. Vel gekk að fá samskot í baukinn, og heldur betur bættist við þegar Ólafur Thors snaraði sér inn í bókabúðina einn morguninn, bauð hressilega góðan dag og sagði: “Er ekki einhver baukur hér fyrir hann Birgi minn?” Undrandi og utan við mig rétti ég fram baukinn og með höfðinglegri sveiflu stakk leiðtoginn splunkunýjum fimmhundruðkalli í baukinn. Tveim árum seinna gerði landslið Íslands garðinn frægan á heimsmeistarakeppninni í Þýzkalandi. Flestum á óvart sigraði Ísland Sviss í undankeppni, og komst þannig í sjálfa úrslitakeppnina. Morguninn eftir hinn sæta sigur gegn Sviss barst okkur svohljóðandi skeyti: “Eftir hatrammar deilur um landhelgismál á Alþingi Íslendinga sameinumst vér í gleði yfir sigri ykkar. Til hamingju, strákar, Ólafur Thors.”

Já, Ólafur Thors kunni góð skil á íþróttum og gildi þeirra og kunni að meta það sem vel var gert.”

Í Dagblaðinu-Vísi er minnzt á Ólafs sögu þriðjudaginn 26. janúar 1982 og segir þar m.a.: “Einhverju sinni varð Ólafur síðbúinn til fundar í Keflavík. Þegar hann birtist í fundarsal kallaði frambjóðandi Alþýðuflokksins, Guðmundur Í. Guðmundsson: “Ratarðu ekki í kjördæminu, Ólafur.

“Nei, blessaður vertu. Hjá þessu dugmikla fólki eru svo stórstígar framfarir að maður kannast ekki við sig frá degi til dags,” svaraði Ólfur. Hann átti þann fund áður en hann hófst.”

Júlíus á Akranesi, fréttaritari Morgunblaðsins þar, skrifar 17. desember 1981 bréf til Velvakanda sem birt er þriðjudaginn 22. desember. Júlíus rifjar upp dvöl Thors Jensens og fjölskyldu hans á Akranesi og þær góðu minningar sem þetta fólk skildi eftir á Skaganum. Hann segir: “Börn þeirra hjóna skildu einnig eftir sig góðar minningar, ekki sízt Ólafur Thors. Foreldrar mínir sögðu, að hann hefði ávallt verið mættur til góðra verka og hefði ekkert aumt mátt sjá, án þess að bæta þar um, og var góð vinátta þeirra á milli alla tíð.

Ólafur var “húmoristi” eins og allir vita, sem þekktu til hans. Á efri árum hitti móðir mín, Emilía Þorsteinsdóttir frá Grund, Ólaf fyrir utan Alþingishúsið, er hún var á ferð í Reykjavík. Ólfur ávarpaði hana þannig: “Nei, komdu blessuð, þetta er þó ekki dóttir hennar Millu á Grund.” Síðar þegar ég átti leið til Reykjavíkur, bað hún mig að skila kveðju til Ólafs með þakklæti fyrir “komplimentið”. Ég hitti hann einnig fyrir utan Alþingishúsið, skilaði kveðjum og þakkaði. Þá sagði Ólafur: “Ég bið kærlega að heilsa henni Millu, mömmu þinni, og segðu henni að þú gætir verið pabbi hennar.””

Fimmtudaginn 17. desember 1981 skrifar Guðjón Ólafsson frá Stóra-Hofi í Velvakanda Morgunblaðsins: “Í Morgunblaðinu sunnud. 13. desember skrifar Erlendur Jónsson greinina “Ævi og störf flokksleiðtoga” um bókina “Ólafur Thors” eftir Matthías Johannessen. Neðst í öðrum dálki til vinstri segir: “Allir voru menn þessir fastir fyrir. Þegar Jón Þorláksson hugðist hækka gengi krónunnar 1925 er sagt að útgerðarmenn hafi gengið á fund Ólafs og beðið hann að telja Jóni hughvarf svo hann hætti við gengishækkunina.” En hún var nú samt framkvæmt. Þetta svar Ólafs sem þarna er sagt frá, heyrði ég Ólaf segja, af allt öðru tilefni. Það var á stjórnmálafundi á Brúarlandi í Mosfellssveit. Þá var bara kominn kjallarinn að því húsi. Ólfur var frummælandi á þeim fundi. Einn fundarmanna var Sigurjón á Álafossi og var þá upp á sitt besta.

Sigurjón hélt skörulega ræðu og bar iðnaðinn fyrir brjósti. Fór hann þess á leit við Ólaf, að hann ynni að því, við Jón Þorláksson að komið yrði á fót iðnlánasjóði eða iðnaðarbanka. Sigurjóni fannst iðnaðurinn ekki fá góða fyrirgreiðslu hjá bönkunum, en Jón Þorláksson var þá að mig minnir fjármálaráðherra. Svar Ólafs varð mér ógleymanlegt: “Ég veit að Sigurjón á Álafossi er sterkur maður, en hann getur reynt að fara að Korpúlfsstöðum og snúa niður stóra nautið hans föður míns.”

Ég sé ekki betur en Ólafur Thors hafi notað samlíkinguna við stóra nautið hans föður síns oftar en einu sinni þegar til þess var ætlazt af honum að hann teldi Jóni Þorlákssyni hughvarf!

Magnús Helgason, forstjóri Hörpu hf., skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 27. júní 1987, Náum sáttum, sjálfstæðismenn. Þar segir hann m.a.: “Hinn fundurinn sem er stór í minningunni er haldinn á Akureyri 1948. Þá hafði um skeið verið ólga í flokknum, eða frá því að Ólafur Thors myndaði nýsköpunarstjórnina 1944 með Alþýðuflokki og sósíalistum. Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins neituðu að styðja stjórnina; þeir Ingólfur Jónsson á Hellu, Gísli Sveinsson, Jón Sigurðsson á Reynisstað, Pétur Ottesen og Þorsteinn Þorsteinsson. Vísir, undir ritstjórn Kristjáns Guðlaugssonar, studdi fimmmenningana ötullega.

Enda þótt nærri tvö ár væru liðin frá því nýsköpunarstjórnin hvarf frá völdum hafði enn ekki gróið um heilt með flokksmönnum.

Á landsfundinum kvaddi Kristján Guðlaugsson sér hljóðs. Hann flutti áhrifamikla ræðu og mæltist til sátta.

Er Kristján hafði lokið máli sínu reis Ólafur Thors upp og mælti:

“Kristján Guðlaugsson hefur rétt fram sáttarhönd, ég segi: hér er önnur.”

Þeir tókust í hendur og voru ákaft hylltir af fundarmönnum.

Sættir höfðu tekizt.”

Davíð Gunnarsson hefur sagt mér frá því að Guðmundur Í. Guðmundsson frændi hans hafi tekið upp á því að koma með móður sína á framboðsfundi og mun hún hafa náð einhverjum atkvæðum handa Guðmundi enda ættuð af Suðurnesjum. Hún var há kona vexti og þegar þau komu á fyrsta fundinn, sagði Ólfur: ““Kemurðu nú með mömmu þína!” Síðar reyndi hann að fylgja gömlum konum inn í salinn áður en framboðsfundur hófst.”

Í samtali sem Kristín Marja Baldursdóttir átti við Hermann Pálsson prófessor og birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. september 1989 segist Hermann vera hættur að fylgjast með stjórnmálum hér heima. “Ég nenni ekki að standa í því lengur. Við vorum nokkrir að ræða um ráðherra hér um árið og þá sagði ég: Nú, er þá Ólafur Thors hættur?”

Í sagnabanka Leifs Sveinssonar segir enn: “Bárður Jakobsson lögfræðingur var meðritstjóri Íslendings árið 1945, en það er blað, sem Sjálfstæðisflokkurinn gefur út á Akureyri. Ólafur Thors kallaði Bárð fyrir sig er hann hafði lokið ársstarfi sem leiðarahöfundur: “Bárður minn, ég verð víst að segja þér upp ritstjórastarfinu. Ef þú hefðir bara farið 51 sinni út af sjálfstæðislínunni, hefði ég ráðið þig áfram, en þú fórst 52 sinnum út af línunni á einu ári í vikublaði. Það er of mikið.”

Í minningarblaði Morgunblaðsins um landgöngu Breta á Íslandi er eftirfarandi saga höfð eftir Ívari Guðmundssyni fréttastjóra: “Á fjórða tímanum nóttina 10. maí 1940 vöknuðu tveir blaðamenn á Morgunblaðinu við flugvéladyn af bresku flugvélinni, sem Bretar höfðu sent upp frá skipum sínum á leið inn Flóann. Þetta voru þeir Ívar Guðmundsson og Pétur Ólafsson. Þeir báru sig saman í síma. Á þessum tíma var mjög óvenjulegt að flugvél væri á ferð, sagði Ívar í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu. Klukkutíma síðar þegar þeir voru komnir niður að sjó, sáust herskipin koma siglandi. Þeir lögðu þá leið sína út á Grandagarð, en fyrst brá Ívar sér í síma og hringdi til Ólafs Thors, sem þá var atvinnumálaráðherra. Ívar segir:

“Það er eitthvað að gerast yfir bænum og herskipadeild er að sigla inn flóann.”

“Vita menn hverjir það eru?” spyr Ólafur.

“Nei, það er ekki ljóst ennþá.”

“Jæja, þá ætla ég að leggja mig á hina, því ef það eru Bretar þá liggur ekkert á. En ef það eru Þjóðverjar þá koma þeir hvort sem er að sækja mig.”

Ólafur Thors átti til að blístra lagstúf þegar hann var á gangi. Einu sinni kom hann blístrandi eftir göngum Alþingis og mætti þá Hannibal Valdimarssyni. Hannibal segir, Er strandkapteinninn að blístra. Já, sagði Ólfur, og skítkokkarnir mega taka undir!

Í samtali sem Ingólfur sonur minn átti við Auði Auðuns og birt var í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. ágúst 1983 er m.a. fjallað um Ólaf Thors. Þar segir: “Ólafur Thors og Bjarni (Benediktsson) voru ólíkir persónuleikar. Ólafur var léttur og e.t.v. aðgengilegri. En þrátt fyrir það ætti ég erfitt með að gera upp á milli þeirra. Ég held að þeir hafi líka af öllum verið viðurkenndir afburðamenn í þinginu. Ólafur Thors glansaði mikið á því, hve hnyttinn hann var í svörum og spaugsamur. Það var t.d. einhvern tíma, að Ólafur var að þæfa eitthvert málið og þá grípa menn oft til þess að lesa upp prentað mál. Ólfur hóf að lesa upp úr ræðum Magnúsar Jónssonar prófessors í Þingtíðindum. Magnús var lengi dósent við Háskólann. Ólafur les langar ræður úr ræðustólnum niðri í þingi, sem gátu með góðum vilja snert málið, sem þæfa átti. Svo þurfti Ólafur náttúrulega að bæta við einhverju frá eigin brjósti og missti þráðinn úr ræðu Magnúsar dósents og endar með því, að Ólafur spyr sjálfan sig upphátt: “Æ, hvar var ég nú staddur í dósa?””.

Í samtali Agnesar Bragadóttur við Viktor Aðalsteinsson sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 4. apríl 1985 er minnzt á Ólaf Thors með þessum hætti: “Nú, þá dettur mér í hug skemmtilegur atburður þegar Ólafur Thors var farþegi hjá okkur. Þetta var á þeim árum þegar DC4 var flogið til Lundúna. Þorsteinn E. Jónsson, flugstjóri hjá Cargolux nú, var flugstjóri í þessari ferð. Þorsteinn var þá tengdasonur Ólafs Thors sem var þá forsætisráðherra. Þorsteinn segir við mig: “Ég ætla að bjóða tengdapabba frammí og bjóða honum að setjast í hægra sætið og stýra.” Þorsteinn bætir svo við: “Þú tekur ekkert “autopilotinn” úr sambandi, svo að forsætisráðherra hvolfi nú ekki vélinni. Ólafur kemur svo frammí og ég býð honum að setjast í sæti mitt og taka við stjórninni. Ólafur sest, grípur með hægri hönd um stýrið og segir hátt og snjallt, með sinni hljómmiklu og skemmtilegu rödd: “Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri?”

Magnús Helgason forstjóri segist ekki gleyma innskoti Ólafs í Kveldúlfsræðuna, þegar hann sagði: “Ég skal með glöðu geði gefa Sigfúsi Sigurhjartarsyni hlutabréf mín í Kveldúlfi svo hann geti þurrkað sultardropann úr nefinu á sér.”

Þá var mikið hlegið. Slík innskot notaði Ólafur oft sem krydd og hafa sum geymzt, en önnur ekki.

Þessar frásagnir hef ég eftir Þorvaldi Garðari Kristjánssyni sem lengi var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, framkvæmdastjóri flokksins og forseti Alþingis:

Í aukakosningunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1952 bað oddvitinn í minni heimasveit, Flateyri, mig að útvega umtalsvert fjármagn til hafnarframkvæmda. Þetta var fyrsta fyrirgreiðsla sem ég var beðinn um á mínum stjórnmálaferli. Ég svaraði: Komdu suður eftir viku.

Það stóð heima. Oddvitinn var kominn suður, ég talaði við Bjarna (Benediktsson) sagði honum málavexti og bað hann útvega mér viðtal við Ólaf Thors sem þá var atvinnumálaráðherra og fór með hafnarmál. Það er útilokað, sagði Bjarni, því að Ólafur hafði ekki komið á sína skrifstofu í stjórnarráðinu og engin viðtöl átt frá forsetakosningum. Síðar sama dag hringir Bjarni í mig og segir að Ólfur komi á sína skrifstofu kl. 11 daginn eftir og þar eigi ég að mæta með oddvitanum. Það fer eftir. En þegar stundin kemur segir dyravörður að ég eigi einn að fara til ráðherrans en oddviti að bíða í biðstofunni.  Mér er vísað inn til ráðherra sem hafði sína skrifstofu í kvistherberginu sem veit að Lækjartorgi.

Ég þekkti ekki Ólaf og hafði aldrei hitt hann eða talað við hann fyrr. Hann tók mér vel, settist við skrifborð sitt og bauð mér sæti gegnt sér. Hann hallaði sér aftur í sæti sínu og setti fæturna upp á skrifborðið svo að sá í skósólana. Hann hóf þegar máls en minntist ekki á erindi mitt. Hann tók að tala um stjórnmál, menn og málefni, ekki dægurmál heldur hin stóru mál, skilnaðinn við Dani, lýðveldisstofnunina, forsetadæmið, forsetakosningarnar. Ég hlustaði með mikilli athygli og fullur aðdáunar og lagði ekki mikið til málanna. Þetta var fremur eintal en samtal. Er hann búinn að gleyma erindi mínu, hugsaði ég. En þegar klukkan er um eitt segir hann allt í einu: “Hvar hafið þér karlinn?” Hann er niðri, sagði ég. Náið þér í hann eru fyrirmæli ráðherrans. Ég sprett upp og þegar ég er með höndina á hurðarhúninum kallar Ólafur: Komið þér aftur og við stöndum báðir á miðju gólfi. Það gengur ekki að karlinn haldi að við þekkjumst ekki. Ég býð yður dús. Til áréttingar faðmaði hann mig að sér og sagði í eyra mér: Mundu það Þorvaldur að hér með ertu kominn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Að vörmu spori var ég kominn með oddvitann. Ólafur ávarpaði hann og sagði að engir peningar væru ætlaðir á fjárlögum til hafnarmannvirkja á Flateyri. Hann væri hins vegar æðsti maður hafnarmála og tæki nú þá ákvörðun að veita þá peninga sem um væri beðið vegna þess að hann hefði engan frið fyrir þessum strák sem sæti yfir sér og heimtaði af sér peninga!

Næsta frásögn Þorvalds:

Það er erfiður dagur framundan. Ég þarf að leysa óvænt fjárhagsvanda vegna mikilvægra framkvæmda í kjördæmi. Það var ekki hægt nema með atbeina forsætisráðherra. En það þurfti á stundum að kveða af eða á um málið. Mikið var í húfi fyrir framkvæmdina sjálfa svo og fyrir orðstír sjálfs mín. Það var barizt um hverja sál í einmenningskjördæmi.

Strax um morguninn náði ég í síma til Ólafs inn á ríkisstjórnarfund. Hann sagðist engan tíma hafa til að tala við mig. Stórmál væru fyrir fundinum og allt á hvolfi. Hringdu í mig klukkan átta í kvöld, sagði hann, og við það sat. Um kvöldið hringdi ég. Hvað á þetta að þýða, hvers vegna getur þú ekki hringt þegar þú átt að gera það. Heldur þú að ég hafi ekkert annað að gera en að bíða við símann eftir að þér þóknast að hringja og var ekkert blíður á manninn. Klukkan var orðin tvær eða þrjá mínútur yfir átta.

En þetta var aðeins byrjunin. Ég sagði honum málavöxtu og ég hefði ekki haft önnur ráð en lofa þá um daginn stórri fjárveitingu í trausti þess að hann kæmi til hjálpar. Það hefði ekki verið um annað að ræða fyrir mig en að duga eða drepast. Ég vissi ekki hvert Ólafur ætlaði að komast, svo mikil var hneykslun hans. “Ég hefði ekki gert þetta í þínum sporum,” sagði hann, “þú mátt undir engum kringumstæðum lofa neinu sem þú ert ekki viss um að geta staðið við.” Þetta voru heilræði að þessu sinni. En í verki skar hann mig úr snörunni.

Héraðsmót Sjálfstæðisflokksins var haldið að Núpi sunnudaginn síðasta fyrir alþingiskosningarnar 1956. Ég bað Ólaf að koma vestur og halda þar aðalræðuna. Hann komst vegna veðurs við illan leik flugleiðis til Ísafjarðar og þaðan með bíl til Þingeyrar og var þaðan kominn á hádegi þann dag sem héraðsmótið átti að vera síðdegis. Hádegisverður var fram reiddur og var það í raun veizla eins og þær gerast beztar. Ólafur sagði ekki ósjaldan við mig á næstu árum: “Það er eitthvað annað veizlan á Þingeyri eða saltfiskurinn sem ég fæ hjá henni Ingibjörgu minni.”

Þegar veizlunni var lokið gengum við Ólafur ásamt konu minni út í bíl sem beið  okkar. Ferðinni var heitið að Núpi. “Kerlingin getur setið framí en við setjum afturí til að geta talað saman,” sagði Ólafur við mig, en um leið og bifreiðin rann af stað sagði hann: “Þú verður að þegja svo ég geti hugsað um á leiðinni hvað ég á að segja í ræðunni á héraðsmótinu.” Samt liðu ekki nema nokkrar mínútur. Ég fæ bylmingshögg í síðuna. Það var olnbogaskot frá Ólafi þegar hann sneri sér að mér og hvessti á mig augun og brýndi raustina: “Hvað á þetta að þýða? Þú leyfir þér að drekka brennivín og átt að fara að halda ræðu. Þetta hef ég aldrei leyft mér,” sagði hann og lagði áherzlu á orð sín. Ég hafði raunar veitt því athygli að hann snerti ekki kokkteilinn sem borinn var fram í veizlunni. En ég hafði borið glasið að vörum, rétt til að sýnast. Það var eins og hann vildi gefa mér tíma til að hugleiða heilræðið en síðan bætti hann við. “Það var sagt að ég hefði verið fullur á Hvammstangafundinum. Þeir héldu að ég væri fullur af því ég var á skyrtunni.”

Og enn:

Ólafur gerði mig að framkvæmdastjóra flokksins og hóf ég þau störf í ársbyrjun 1961. Það fylgdi starfinu að skrifa fundargerðir þingflokks og miðstjórnar flokksins. Ég spurði Ólaf, Hvernig viltu hafa fundargerðirnar, viltu hafa þær ítarlegar. Svar: Skrifaðu sem minnst, strákur, til þess að menn þurfi ekki að skammast sín fyrir það sem þeir hafa sagt.

Ég spurði Ólaf hvað hann vildi fylgjast nákvæmlega með því sem var að gerast á flokksskrifstofunni. Svar: Vertu ekki að ónáða mig við að stjórna landinu, þú stjórnar flokknum.

Í Ólafs sögu er minnzt á boð danskra íhaldsmanna til Sjálfstæðisflokksins, en Ólfur þvertók fyrir að mæta í veizlu hjá danska íhaldinu. Hann sagði við Þorvald Garðar: “Hambro (þ.e. forseti norska stórþingsins) er vinur minn og ég tala við hann sjóaranorsku.” En veizlan á Hotel D’Angleterre var fræg að endemum fyrir svo skæða matareitrun að fjöldi manna varð fárveikur og einn eða tveir létust. Veizlu þessa sátu allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandaþingi nema Ólafur, sjálfur forstætisráðherrann.

Þegar Ólafur kom heim frá Norðurlandaþingi sagði hann við Þorvald: “Sagði ég þér ekki hvers væri að vænta af dönskum íhaldsmönnum. Þeir voru  nærri búnir að drepa fyrir okkur Gísla (Jónsson) og Magnús (Jónsson). Ég slapp aðeins vegna þess að ég mældi göturnar í Kaupmannahöfn meðan á veizluhöldunum stóð.”

Eitt kvöldið sagði Ólafur Thors Þorvaldi Garðari frá því að hann hefði staðið í ströngu þann dag: “Í dag komu til mín heildsalar og aðrir slíkir og gerðu miklar kröfur til flokksins. Ég neitaði en þeir létu sér segjast og voru þaulsetnir. Að skilnaði sagði ég við þá: “Þið eruð ríkir og getið hugsað um ykkur sjálfir, Sjálfstæðisflokkurinn hugsar um þá fátæku.”

Og loks.

Upp kom vandamál haustið 1964. Deilur urðu, öldur risu hátt. Þetta var innanflokksmál í Sjálfstæðisflokknum. Ég kom þar við sögu sem framkvæmdastjóri flokksins. Mér fannst mér misboðið og sagði ráðherrum flokksins það. Þeir sögðu aftur Ólafi en hann hafði þá sagt af sér embætti forsætisráðherra. Ólafur sló á þráðinn til mín og vildi lægja öldur og láta gott af sér leiða. Hann bað mig að taka þessu rólega. Ég fékk á tilfinninguna að verið væri að klappa á kollinn á mér og biðja um að ég væri ekki með nein barnabrek. Það var þungt í mér og þetta var eins og skvetta olíu á eldinn og féllu mörg orð á báða bóga og svo fór að ég sagði: “Ólafur, hvers vegna þarftu alltaf að stinga rýtingnum í bakið á mér þegar verst gegnir?” Ég var ofsareiður en þetta voru í hæsta máta ómakleg orð.

Ólafur skellti á.

Næstu daga voru algjör friðslit milli okkar Ólafs. Bjarni Benediktsson sagði mér að Ólafur hefði talað við þá ráðherra flokksins og sagt að það væri ekki hægt að þola ófyrirleitna framkomu stráksins. Við Ólafur vorum báðir í þinginu daglega, heilsuðumst ekki, litum ekki hvor á annan, við sátum á þingflokksfundum nær samhliða og hvor lét sem hinn væri ekki til. Á þriðja þingflokksfundinum sem svo var ástatt kom skyndilega og óyfirvegað yfir mig sú hugsun að ég ætti að vera fyrri til að rjúfa múrinn á milli okkar, mér bæri skylda til þess, ég væri yngri maður. Ég ákvað að tala við Ólaf strax þegar fundinum lyki en þá bar það óvænt við að Ólafur var fyrri til og gaf mér bendingu að tala við sig. Áður en ég vissi af stóðum við Ólafur tveir úti á gólfi, hinir þingmennirnir höfðu rokið út í skyndi, sennilega vitað og séð að eitthvað var á seyði. Ólafur tók um herðar mér, faðmaði mig eins og í fyrsta viðtali okkar, hann sagði: “Látum þessum blóðnóttum vera lokið. Ég var ósvífinn en ekki varst þú betri.” Allt varð á svipstundu eins og áður. Þetta var síðasta samtalið sem ég átti við Ólaf. Ég sá hann aldrei aftur. Daginn eftir lagðist hann banaleguna. Ég fékk stundum skilaboð frá honum út af smáviðvikum en það síðasta sem ég heyrði frá honum var: “Þorvaldur hafði á réttu að standa, ég var blekktur.”

Í sjónvarpssamtali sem Árni Gunnarsson átti við Gylfa Þ. Gíslason í ágúst 1990 er minnzt á Ólaf Thors með þessum hætti:

“Eitt af stefnumálum Viðreisnarstjórnarinnar var að koma á fót Seðlabanka. Við Jóhannes Nordal og Jónas Haralz sömdum frumvarp að lögum um Seðlabanka. Í því var m.a. kveðið svo á, að hluti af hagnaði Seðlabankans skyldi renna í Vísindasjóð og skyldi hann stórefldur með því.

Ég gleymi því aldrei, að þegar ég var að kynna frumvarpið á ráðherrafundi og kom að þessu ákvæði, þá hrökk Ólafur Thors við, byrsti sig og sagði: “Nú ertu eitthvað að plata okkur, Gylfi. Er það menntamálaráðherrann eða viðskiptaráðherrann sem er að tala?”

Ég var alltaf vanur að ræða það sérstaklega við Ólaf Thors ef um eitthvað óvenjulegt eða sérstakt var að ræða í mínum málum. Þetta hafði ég nú af einhverjum ástæðum vanrækt. Ég bað um að þessi grein yrði rædd síðar.

Strax eftir hádegið talaði ég við Ólaf og bað hann afsökunar á því að hafa ekki fyrr rætt þetta ákvæði við hann en það var óneitanlega dálítið óvenjulegt. Ég sagði honum að það væri mikið áhugamál okkar allra, höfunda frumvarpsins. Hann tók mér vel eins og alltaf og kvaðst mundu styðja málið.

Þá var því borgið.”

Í samtali okkar Björns Finnbogasonar í Garðinum sem átti langt og gott samstarf við Ólaf Thors tók Björn dæmi um það hve Ólafur var skjótur að leysa vandamál og verða við óskum úr kjördæminu. Björn rak verzlun í Garðinum eftir að hann hætti í útgerð og varð oddviti 1938. Honum þótti illt hvernig staðið var að söluskatti á kexi og færði þetta í tal við Ólaf einhverju sinni, þegar þeir hittust í Reykjavík. Ólafur sagði við hann, Ég er að fara að hitta Jónas Haralz, ég skal færa þetta í tal við hann. Og það var eins og við manninn mælt að Ólafur leysti málið. Síðar hitti Björn Þorlák Benediktsson sem rak aðra verzlun í Garðinum og Þorlákur spurði Björn hvort hann hefði talað við Ólaf um þetta mál og Björn svaraði því játandi. Þá spurði Þorlákur hvort hann væri ekki í Kaupmannasamtökunum. Nei, sagði Björn, á það hrafnaþing hef ég aldrei komið. En þá sagði Þorlákur honum að Kaupmannasamtökin hefðu í mörg ár reynt að fá þessa breytingu fram, en ekki tekizt.

Einhverju sinni sem oftar fór Björn Finnbogason á fund Ólafs og óskaði eftir því að hann beitti sér fyrir að síminn væri opinn á sömu stöðum í öllum sjávarplássunum á Suðurnesjum. En þá var það svo að símarnir voru opnir á ólíkum tímum í Garðinum, Grindavík, Sandgerði o.s.frv. Ólafur tekur þessari ábendingu Björns vel og hringir í Guðmund Hlíðdal póst- og símamálastjóra, en Björn sat í skrifstofunni og hlustaði á samtalið. Ólafur segir honum frá erindi Björns og óskar eftir því að þessu verði kippt í lag. Guðmundur Hlíðdal fer að lýsa ágæti þessa fyrirkomulags og afsaka yfirvöld Pósts- og síma og segir m.a. að það muni hafa aukakostnað í för með sér ef símarnir séu opnir á öllum stöðunum í einu. En þá segir Ólafur, Ég þakka þér fyrir áhuga þinn á að halda dýrtíðinni niðri, en ég held nú samt að við ættum að hlusta á það sem Björn hefur að segja því annars kemur hann eftir nokkra daga með alla karlana í Garðinum sem ekkert skilja og þeir heimta það sama.

Næsta dag var ákveðið að síminn væri opinn á sama tíma í Garðinum og Grindavík og annars staðar á Suðurnesjum.

Þegar Björn ákvað að kaupa bíl af Sambandinu, sagði hann Ólafi frá því. Hann sagði við Ólaf, Ég vil heldur kaupa af þeim í Sambandinu því þeir eru kurteisari en hinir. Alveg rétt, sagði Ólafur.

Björn sagði einhverju sinni við Ólaf, Nú geturðu aukið fylgi þitt. Nú, hvernig? spurði Ólafur. Næst þegar verður uppgripaafli í plássunum hérna fyrir sunnan þá hringi ég til þín og þú kemur niður á bryggju og talar við karlana. Nei, sagði Ólafur, það geri ég ekki, ég hef aldrei lagt fyrir mig svoleiðis skrílshátt.”

Loks sagði Björn Finnbogason í samtali okkar: “Ég gekk alltaf hreint til verks og sagði Ólafi hug minn enda hafði ég reynslu fyrir því að hann tók því ævinlega vel og svaraði eins og spurt var. Einhvern tíma tönnluðust andstæðingarnir á því að Bjarni Benediktsson væri að reyna að ýta Ólafi úr sæti hans. Ég spurði Ólaf beint, Er nokkuð til í því að Bjarni sé að rægja þig úr embætti? Hann Bjarni, sagði Ólafur og brosti, nei, Björn minn, það er ekkert til í því. Það er það síðasta sem Bjarni Benediktsson myndi gera. Hann er hlédrægur maður í eðli sínu og ég hef þvert á móti alltaf þurft að ýta honum áfram frekar en hitt. Hlustaðu ekki á orð af því sem andstæðingarnir segja um þetta.

Ég þurfti ekki að spyrja frekar, vissi að samstarf þeirra Bjarna var byggt á heilindum sem enginn brestur var í.”

Í samtali okkar Karvels Ögmundssonar sagði hann m.a. þegar ég spurði um Ólaf Thors að hann hefði haft mikinn áhuga á hafnargerð í Ytri-Njarðvík, en það hafi mætt mikilli andstöðu formanna í Keflavík og víðar. Það urðu Ólafi vonbrigði en hann taldi að höfn ætti að byggja þar sem skilyrði væru bezt af náttúrunnar hendi. Hann barðist þó fyrir hafnarmannvirkjum annars staðar, rafmagni og öðrum framfaramálum í kjördæmi sínu, en lagði áherzlu á  að þeir sem sinntu fiskverkun í Garðinum ættu frekar að bæta vegina en byggja hafnarmannvirki við erfðar aðstæður þar á staðnum. Þetta var og gert, góðir vegir eru þannig fremur undirstaða atvinnuvega í Garðinum en hafnarmannvirki.

Karvel Ögmundssyni er Ólafur minnisstæður á fyrsta kosningafundinum sem hann fylgdist með frambjóðendum í Gullbringusýslu, það var í ungmennafélagshúsi Keflavíkur 1933. Á fundinum kallaði einhver frammí fyrir Ólafi og lét falla hnjóðsyrði í garð Eysteins Jónssonar. En um leið og hann hafði sleppt orðinu svaraði Ólafur með því að verja Eystein. “Þið eruð að hnýta í hann Eystein Jónsson,” sagði hann, “en ég get sagt ykkur það, drengir mínir, að Eysteinn er hinn prýðilegasti maður.” Og svo tók hann upp hanskann fyrir Eystein í alllöngu máli. Allir urðu undrandi og það varð dauðaþögn í salnum svo að heyra mátti saumnál detta. “Ég hef aldrei heyrt Ólaf fá annað eins klapp eins og eftir þennan fund,” sagði Karvel. Hann hafði augsýnilega unnið hug allra þeirra sem fundinn sátu.

Þegar Ólafur hafði setið þrjátíu ár á Alþingi vildu Suðurnesjamenn gefa honum málverk eftir Kjarval og var Karvel falið að velja þessa gjöf. Kjarval var heldur úrillur þegar hann kom á fund hans og spyr hvaða mynd þeir vilji. Karvel segir að hann vilji fá málverk af Dyrfjöllum. “Já, Dyrfjöllum,” segir Kjarval, “þetta grunaði mig. Nei, það skal hann aldrei fá. Ég hef margreynt að gefa honum þetta málverk en hann hefur aldrei viljað þiggja við það” – og það var engu tauti komið við Kjarval. Karvel fór þá á fund Jóns Þorsteinssonar og bað hann um að ganga í lið með sér og svo fór að hann fékk málverkið hjá Kjarval. Fór síðan með það heim til Ólafs. Ingibjörg tekur á móti honum og vísar honum inn. Hann segist vera með gjöf handa Ólafi í tilefni af 30 ára þingafmæli hans. Ingibjörg hugsar sig um og segir, “Já, en hann Ólafur minn hefur bannað okkur að halda upp á þetta afmæli með nokkrum hætti.” “Það getur verið,” segir Karvel, “en ég er nú samt kominn með málverkið.” Þá kemur Ólafur niður stigann eins og fellibylur og segir: “Út, út, út með þetta(!) Ég vil ekki sjá nokkurn skapaðan hlut frá nokkrum manni í tilefni þessa afmælis. Ég hef harðbannað konu minni og börnum að halda upp á þetta afmæli og þau hafa látið að minni stjórn. Sama gildir um ykkur.”

En Karvel hugsaði með sér að hann skyldi ekki gefast upp. “Ég er sannfærður um það að þú kannt að meta þessa gjöf frá okkur Suðurnesjamönnum þegar fram líða stundir” sagði hann og ýtir málverkinu að honum. Ólafur stendur þögull og horfir á myndina, en segir svo, “Nei, er þetta af Dyrfjöllunum?” “Já,” segir Karvel. “Þetta málverk hefur Kjarval oft reynt að gefa mér, en ég hef aldrei getað fengið mig til að þiggja slíka stórgjöf. Heyrðu, elsku vinur, komdu inn fyrir og fáðu þér hressingu. Hún Ingibjörg mín kemur þessu fyrir og mikið þakka ég ykkur hjartanlega fyrir, þetta var ykkur líkt.” Síðan sátum við og röbbuðum góða stund og mér leið jafn vel og ávallt áður á þessu góða heimili. En það verð ég að segja að mér leizt ekki á blikuna þegar Ólafur kom svona úfinn niður stigann. Ég hef oft verið á sjó og komizt í hann krappan og stundum séð algjöra tvísýnu fyrir höndum. En sjaldan hefur mér brugðið meir en þegar Ólafur kom eins og fellibylur, bandaði frá sér og sagði út, út, út með þetta(!) En ég get verið fastur fyrir enda hefur sjórinn verið mitt viðfangsefni.

Í æviminningum Karvels Ögmundssonar, Sjómannsævi, er sérstakur kafli um Ólaf Thors. Þar er m.a. sagt ítarlegar frá ummælum hans um Eystein Jónsson, einnig er þar að finna söguna um Dyrfjallamálverk Kjarvals og þrjátíu ára þingafmæli Ólafs.

 

 

fimmtudagur
okt.222009

Ný ljóðabók eftir Matthías (Morgunblaðið)

fimmtudagur
okt.222009

Blómstrið eina (Leiðari, Morgunblaðið)

fimmtudagur
okt.222009

Matthías Johannessen yrkir af þrótti (Fréttablaðið)

miðvikudagur
okt.142009

Útgáfu fagnaður

laugardagur
maí162009

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen: Sonakveðja

Ungur orti faðir okkar ljóð um móður okkar sem hann birti síðar í bókinni Mörg eru dags augu. Þar heitir það Vor í skafli:

Sá dagur var ei draumsjón köld og ber
sem dyra knúði og spurði eftir mér,
hann var mín gæfa, veröld fersk og ný
sem vor í skafli, moldin dökk og hlý.

Þú varst sá dagur, ung með augu brún
og yl sem fari sunnangola um tún,
og grasið var mín unga ást til þín.
Ég er þitt ljóð og þú ert stúlkan mín.

Úr þvalri jörð mun þiðna krapamor
og þá mun aftur koma túngrænt vor
með sumarbros og sólskinslokk um kinn.
Mín sól ert þú og ég er skuggi þinn.

Hún var einnig sólin í okkar lífi og af birtu hennar nærðumst við alla tíð. Ást hennar og hlýja var það veganesti sem gaf okkur feðgum þrek og lífskraft, en þessi birta átti ekki síst rætur í trú hennar, arfleifð og umhverfi. Hún var fædd og uppalin á Hólsfjöllum og þaðan fékk hún sinn víða sjóndeildarhring og sínar djúpu íslensku rætur. Þögn öræfanna var eitt helsta einkenni hennar og þá ekki síður virðingin fyrir lífi og dauða sem birtist einatt í dularfullri reynslu þess sem andar að sér jörð og ilmi og veit að þetta umhverfi er hugarveröld guðs, svo vitnað sé í trúarsannfæringu listaskáldsins Jónasar.

Nú hverfur hún aftur inní þessa djúpu þögn sinna ungu æskudrauma,við horfum á eftir henni; hlustum.

Móðir okkar var hljóðlát kona, minnti á hulduna í íslenskri náttúru, en var samt ákveðin og stefnuföst og það kom sér oft vel í margvíslegum afskiptum hennar af félags- og mannúðarmálum, en þó ekki síður sem bakhjarl í harla erfiðum störfum ritstjórans, föður okkar. Þar var hún kletturinn og veðraðist ekki. Við munum hana oft sem ráðgjafa hans, ekki síður en okkar, og ráð hennar brugðust aldrei. Tilfinning hennar fyrir tungunni var einstök og einatt til hennar leitað í þeim efnum.

Um viljann til þátttöku í umróti tímans er ekki síst fjallað í ljóðaflokknum Jörð úr ægi, en þar leikur móðir okkar aðalhlutverkið: stúlkuna sem kemur með landið til skáldsins og gefur borgarbarninu nýja sýn og nýjan skilning til að horfast í augu við blákaldan veruleikann, þótt hann eigi að sjálfsögðu upphaf í óskilgreinanlegri dulúð. Um slík efni hugsaði hún oft og minntist þá gjarnan á merkilega drauma sem hana hafði dreymt og tengdi þá stundum lífi okkar og reynslu. Það var engin tilviljun að síðustu ljóðin sem hún las voru í Stjörnum vorsins eftir Tómas. Hún gleymdi því aldrei þegar skáldið kom með þjóðhátíðarkvæðið 1974 og las það í stofunni heima á Reynimel fyrir foreldra okkar. Faðir okkar hafði beðið hann að yrkja hátíðarkvæði sem Tómas flutti svo sjálfur á Þingvöllum. En flutningurinn í stofunni heima var ekki síður hátíðleg stund og móður okkar ógleymanleg.

Við fylgdumst með móður okkar að sjálfsögðu bæði heima og heiman. og auðvitað var það í senn ómetanleg reynsla af ólíkum heimum og hefur hún komið sér vel í baráttunni við alls konar áreiti og áskoranir. En umfram allt höfum við getað sótt  næringu í óbilandi þrek hennar, traust og trú. Allt hefur þetta einkennt fólkið hennar frá Víðirhóli á Fjöllum. Starf hennar fyrir kirkjuna var sprottið af ást og sannfæringu.

Eitthverju sinn .þegar foreldrar okkar voru í heimsókn á Víðirhóli og gengu um æskuslóðir hennar yfirgefnar, kviknaði ljóðið Víðirhóll á Hólsfjöllum. Hún var ekki vön því að flíka tilfinningum sínum, en minntist þess síðar hvað það yljaði henni, þegar Snorri Hjartarson hrósaði ljóðinu við hana og hennar þætti í því:

Við fjárréttina er mýrasóley
með gulhvítu blómi
og grænum hjartalaga blöðum
-ég sé í huga mér
litla stúlku
hlaupa um þessa lynggrænu mela
með jarpt flaksandi hár...
og moldbrún augu.

Hún beygir sig niður
eftir blómi
og réttir mér hjarta
úr grænu blaði,.

réttir hún mér hjarta
vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin
horfir á okkur
úr öllum áttum..

Við lútum höfði í minningu móður okkar og þökkum henni fyrir allt - ást hennar, trú, þrek og umhyggju.

Haraldur og Ingólfur

laugardagur
maí162009

Hanna Johannessen 1929-2009 - örnbárður.annáll.is

Við útför Hönnu flutti ég stutt minningarorð við upphaf athafnarinnar en meginræðuna flutti starfsbróðir minn dr. Sigurður Árni Þórðarson og birtir hana á sinni vefsíðu.

Textinn kemur hér á eftir og ennfremur upptaka sem hægt er að hlusta á.

Minning
Hanna Johannessen
1929-2009

Í nafni Guð, föður og sonar og heilags anda. Amen.

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.

Friður Guðs sé með okkur öllum sem hér komum saman til að kveðja Hönnu Johannessen, einstaka konu og frábæra, kveðja og ekki síður þakka fyrir allt það sem hún var okkur.

Neskirkja var hennar annað heimili. Hér fann hún lífi sínu farveg. Kirkjan er oss kristnum móðir, segir í góðum sálmi. Kirkjan nærir okkur, verndar og leiðir með starfi sínu og trú á hið stóra samhengi. Kirkjan er oss kristnum móðir. Þetta vitum við og þekkjum sem hér störfum en við vissum líka að hún Hanna var okkur ennfremur sem móðir. Hún kom hingað oft í viku hverri og lét sig sjaldan vanta í helgihald. Hún þjónaði með okkur prestunum um árabil, útdeildi sakramentinu hvern helgan dag í mörg ár. Hún var nánast eins og hluti af altarinu, þessi tindilfætta, netta kona, sem gat gengið upp og niður kórþrepin á ótrúlega háum hælum með kaleik í höndum án þess að fipast nokkru sinni.

Hanna, svo nett og létt sem hún var, var þó föst fyrir, orð hennar vógu þungt. Ég hef þekkt a.m.k. tvær litlar litlar konur um ævina, en báðar ótrúlega stórar. Hanna var önnur þeirra. Svo var hún eiginlega eterísk, yfir jarðnesk, eins og fram kemur í ljóðum Matthíasar. Hún birtist með einum og öðrum hætti á bak við allt hjá honum enda þau helftin af hvort öðru í einlægri, djúpri, gagnkvæmri ást. Hún var yfir jarðnesk, næstum óefnisleg en um leið svo ótrúlega jarðnesk, fjallkona, fædd og fóstruð á Fjöllum, tengd háleitum hugsjónum lands og lýðs og um leið svo næm á púls mannlífsins og neyð náungans. Hún lét um sig muna á mörgum sviðum: lagði föngum lið í Vernd, börnum í gegnum Barnaverndarnefnd; hún var einlægur Sjálfstæðismaður og svo var hún kirkjunnar barn. Hún spannaði allt sviðið frá háfjöllum niður í fjöruborðið í Vesturbænum, sveit og borg sameinuðust í henni. Svo var hún malbikskona með bíladellu sem fékk „kikk“ út úr því að finna aflið í góðum bíl og horfa á Fromúluna. Þegar hún trúði mér fyrir áhuga sínum á kappakstri spurði ég hana hvernig hún gæti horft á tímatökuna á nóttinni og mætt í messu um morguninn. Uss, það er ekkert mál, ég tek þetta bara upp og horfi á það þegar messan er búin. Messan og malbikið kölluðust á, bænirnar sem stíga upp til Guðs sem reykelsi og reykurinn úr dekkjum Schumachers og Raikkonens.

Hún var einstök manneskja og ég á henni mikið að þakka. Líklega væri ég ekki hér í embætti nema fyrir hennar atbeina og fv. formanns. Hún kunni þá mikilvægu list að aðgreina jafnan persónu og skoðanir fólks. Hún lét það ekki trufla sig þótt hún heyrði eitthvað héðan af prédikunarstóli sem gat hugsanlega stangast á við skoðanir hennar. Hún vissi að málfrelsi skiptir miklu og svo hitt að hver manneskja er dýrmæt í augum Guðs burtséð frá skoðunum og gengi dagsins.

Árum saman kom hún í kirkjuna á virkum dögum. Við heyrðum fótatakið berast um húsið, glaðlegar kveðjur ómuðu um kirkjutorg og ganga og svo birtist hún með brosið sitt, alltaf fín og vel til höfð, með varalitinn við höndina. Hún gaf sér tíma til að fá sér kaffitár, setjast inn hjá okkur prestunum, ræða málin, segja sögur, rifja upp gamla tíma. Svo var hún flogin heim til að hugsa um Matthías og fjölskylduna. Hún bar með sér birtu og vorblæ hvar sem hún fór, uppörvaði fólk og hvatti til góðra verka.

Hún átti einlæga trú en ræddi ekki mikið inntak hennar. Hún var ekkert að flækja málin með einhverjum guðfræðilegum pælingum. Hún kom vikulega í bænastundir í hádeginu á miðvikudögum og oft með bænarefni á miða eða munnlega. Hún trúði á mátt bænarinnar og bar hingað inn í helgidóminn í huga sér marga vini og líka vandalausa sem hún vissi að ættu um sárt að binda. Hún trúði. Hún bjó yfir innri skynjun sem hún flíkaði ekki en var hluti af trúartrausti hennar og lífsafstöðu.

Það er undarlegt til þess að hugsa að fótatakið hennar heyrist ekki oftar hér í kirkjunni, að hún sitji ekki aftur á þriðja bekk í fyrsta sæti til vinstri. Þar er nú blóm til að minna á hennar nærveru og tjá söknuð okkar. Missir okkar er mikill, missir þeirra sem hún starfaði með og fyrir, en stærstur er missir Matthíasar, sona hans og fjölskyldu allrar. Guð styrki ykkur og blessi í sorg og söknuði.

Hanna er bara horfin um stund úr þessum efnisheimi, þessari tilveru sem við nú gistum. En hún lifir í minningum okkar.

Hvernig eru englar? spurði barnið vitringinn. Honum vafðist tunga um tönn en sagði svo að þeir hefðu hugsanlega ekki líkama eða efnislegt form en kæmu fram í hlutverkum. Í þeim skilningi var Hanna engill, hún gegndi engilshlutverki. Og nú ég ætla að trúa þér fyrir hugsun sem læðist að mér. Ég er ekki frá því að hún hafi haft vængi.

Blessuð sé minning Hönnu.

Starfsfólk, sóknarnefnd og prestar Neskirkju þakka samfylgd. Sömuleiðis hefur sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, prófastur, beðið fyrir þakkir fyrir 13 ára starf í héraðsnefnd prófastsdæmisins. 2. deild AA samtakanna, sem á heimastöð hér í Neskirkju þakkar Hönnu stuðning í áratugi. Sömuleiðis þakkar Hjálpræðisherinn samvinnu og stuðning Hönnu í áratugi.

Gestabók . . .

Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu . . .

Við erum hér til að þakka og gleðjast yfir góðu lífi Hönnu - þetta er útför og þakkarhátíð - og þá fer vel á því að syngja sálm Einars Benediktssonar sem lyftir okkur upp í himinhæðir.

Örn Bárður